Lífið

Eldhúsin eru að breytast

Elín Albertsdóttir skrifar
Berglind Berndsen er innanhússarkitekt og veit hvað er vinsælast fyrir heimilið.
Berglind Berndsen er innanhússarkitekt og veit hvað er vinsælast fyrir heimilið. MYND/EYÞÓR
Berglind Berndsen er vinsæll innanhússarkitekt en hún aðhyllist einfaldleika og tímaleysi í hönnun. Hún segir mjög mikilvægt að hugsa fram í tímann þegar fólk stendur í umfangsmiklum breytingum á heimilinu.



Berglind rekur eigin teiknistofu og hefur unnið sjálfstætt frá árinu 2011. Hún nam innanhússarkitektúr við Fachochschule Trier í Þýskalandi / University of Applied Sciences, Trier og útskrifaðist þaðan 2007. Hún er einnig með M.Art.Ed.gráður gráðu frá Listaháskóla Íslands. Berglind hefur tekið að sér verkefni jafnt hjá einstaklingum sem fyrirtækjum og fengist við fjölbreytileika þeirra.

Fréttir hafa borist af því að eldhúsinnréttingar seljist nú sem aldrei fyrr. Berglind segist hafa tekið eftir þessu. „Þeir viðskiptavinir sem leita til mín eru fyrst og fremst að sækjast eftir tímalausri hönnun þar sem vinnufyrirkomulag er í hávegum haft með auknu skápaplássi. Einnig er fólk mun meira farið að hugsa út í mikilvægi góðrar vinnulýsingar,“ segir hún og bætir við að eldhúsin hafi breyst á síðustu árum.

Ekki u-laga lengur

„Fólk er hætt að biðja um aflokuð U-laga eldhús með hornskápum sem að mínu mati nýtast mjög illa. Mikilvægt finnst mér að skapa rúmgott eldhús fyrir fólk með miklu skápaplássi, góðu vinnufyrirkomulagi og góðu flæði. Ég reyni einnig alltaf eftir fremsta megni að hanna stórar eyjur með góðri vinnuaðstöðu í eldhús. Með breyttum viðhorfum, þar sem allir fjölskyldumeðlimir eru farnir að taka virkan þátt í eldhússtörfum, finnst mér í góðu lagi að hafa eldhúsið opið inn í borðstofu og stofu, það einfaldlega stækkar rýmið og flæði verður betra á milli rýma. Eldhús og borðstofa verða því oftast hjarta heimilisins. Ég leitast einnig við að hafa efnisval í eldhúsum í samræmi við heildarhönnun hússins og mynda þannig eina samræmda heild,“ útskýrir Berglind.

Misjafn smekkur

Þegar hún er spurð hvort fólk sé mikið að breyta nýlegum eldhúsinnréttunum, mála þær eða filma, svarar hún því játandi. „Ég hef aðallega tekið eftir þessu á Facebook, hef séð bæði góð og mjög slæm dæmi af þessum breytingum. Smekkur fólks er mjög misjafn. Mér finnst skipta mestu máli að huga vel að þörfum og óskum hvers og eins viðskiptavinar. Mikilvægt fyrir mig er að hjálpa fólki að skapa rétta upplifun og stemmingu á heildarmyndinni,“ segir hún. „Það er mikilvægt að hugsa stórar framkvæmdir til langs tíma. Ef íbúð eða hús er vel innréttað og innréttingar hannaðar í rýmið standast þær tímans tönn. Við fáum gjarnan innblástur frá nágrannaþjóðum okkar Dönum og Svíum þegar kemur að hönnun og arkitektúr.“

Berglind segir að það séu alltaf einhverjar tískusveiflur í gangi. „Innst inni er ég sannur mínímalisti og heillast mikið af náttúrulegum efnivið á móti mjúkum, til dæmis er ég ofboðslega hrifin af marmara og dökkbæsuðum innréttingum. Ég elti ekki mikið tískustrauma. Fallegir og dempaðir jarðtónar finnst mér fallegastir eins og gráir, bláir og grænir tónar. Pantone-litur ársins 2018 heitir Ultra violet sem er fjólublár litur. Ég er ekki alveg komin þangað en það kemur kannski með vorinu. Ég er meira í grá/fjólutóna lit sem mér finnst ofboðslega fallegur og notalegur,“ segir Berglind og bendir á að fólk geti sparað mikla fjármuni með betri hönnun og nýtingu sem arkitektar koma með í sínum tillögum.

Draumaheimilið skapað

„Það er meiri skilningur í dag á arkitektúr, skipulagi og vönduðum vinnubrögðum. Ég hef oft verið kölluð til þegar allt er komið í rugl og oft er ekki svo auðvelt að bæta skaðann. Eitt af hlutverkum okkar arkitekta og innanhússarkitekta er að þarfagreina og aðstoða viðskiptavini okkar við að byggja upp draumaheimili sitt.

Markmið mitt er ávallt að skapa fallega umgjörð og að örva upplifun fólks á hönnun rýmisins og innviðum þess. Einlægni, traust og gott samband við verkkaupa er því mjög mikilvægur þáttur í vinnu minni og ef traust ríkir getur upplifunin ekki orðið neitt annað en jákvæð í lok verks. Það sem er mikilvægast að hugsa um er samband á milli skipulags og innra fyrirkomulags í sjálfu rýminu. Fólk hugar oft ekki ekki nógu vel að grunnskipulaginu sjálfu. Það þarf að úthugsa rýmið svo besta nýting náist. Huga þarf að einföldu og góðu vinnufyrirkomulagi og miklu skápaplássi. Ef pláss er fyrir hendi reyni ég alltaf að hanna góðar eldhúseyjur eða extra djúpar innréttingar til að ná þessum eyjufíling. Síðan eru búr/og tækjaskápar eitt best falda leyndarmál eldhúsa. Góð vinnulýsing skiptir einnig gríðarmiklu máli upp á heildarsamhengið og hefur mikil áhrif á líðan fólk,“ útskýrir hún.

Gluggatjöld úr basti

En hver er nýjasta tíska varðandi gluggatjöld í eldhús en það getur verið höfuðverkur margra að finna þau? „Ég nota mikið bastgluggatjöld frá Skermi og svört breið rimlagluggatjöld frá Zenus. Einnig nota ég hvít voal-gluggatjöld þar sem við á. Kúnnar mínir reka oftar en ekki upp stór augu þegar ég sting upp á þessu við þá en útkoman er alltaf glæsileg. Núna vill fólk hafa notalegt og persónulegt í kringum sig. Einfaldleikinn og tímaleysið er hinn fullkomni grunnur fyrir mér sem auðvelt er að vinna með og breyta eftir stemmingu og án mikillar fyrirhafnar.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×