Viðskipti innlent

Hag­stofan hafnar gagn­rýni Sam­taka at­vinnu­lífsins á launa­vísi­töluna

Kjartan Kjartansson skrifar
Launavísitalan og meðallaun eru tveir ólíkir mælikvarðar sem Hagstofan notar til að fylgja með breytingum á launum.
Launavísitalan og meðallaun eru tveir ólíkir mælikvarðar sem Hagstofan notar til að fylgja með breytingum á launum. Vísir/Vilhelm
Gagnrýni Samtaka atvinnulífsins um að launavísitalan sé röng er einföldun og byggir á samanburði á tveimur mælikvörðum sem segja hvor sína sögu um breytingar á launum. Þetta kemur fram í yfirlýsingu frá Hagstofunni.

Í grein sem birtist á vefsíðu Samtaka atvinnulífsins (SA) í gær var fullyrt að launavísitalan sem Hagstofan reiknar út sé ótækur mælikvarði á launabreytingar á Íslandi. Hún ofmeti launabreytingar með þeim afleiðingum að vísitalan hækki um 1% árlega umfram hækkun meðallauna.

Þessi gagnrýni er á misskilningi byggð ef marka má svargrein Hagstofunnar sem birtist á vef hennar í dag. Þar kemur fram að samanburður á launavísitölunni annars vegar og meðallaunum hins vegar geti ekki einn og sér skilað þeirri niðurstöðu að annar mælikvarðinn sé rangur.

Launavísitalan og meðallaun séu ólíkar leiðir til að mæla launabreytingar. Mælikvarðarnir tveir segi ólíka sögu, hafi ólíkan tilgang og byggi á mismunandi aðferðum. Þannig sé launavísitölunni samkvæmt lögum ætlað að sýna launabreytingar fyrir fastan vinnutíma.

Breyting á meðallaunum sýni breytingar á launum miðað við samsetningu vinnuaflsins hverju sinni. Þau endurspegli því breytingar á launum, vinnutíma og vinnuafli.

Með fullyrðingum sínum um að samanburður á vísitölu launa og meðallauna sýni að launabreytingar hafi verið stórlega ofmetnar horfi samtökin algerlega fram hjá þessum ólíku aðferðum.

„Aukið framboð af ódýrara vinnuafli í þjónustu-, sölu- og afgreiðslustörfum lækka meðallaunin en áhrifin á launavísitöluna verða óveruleg. Til að launavísitalan lækki þurfa hinsvegar laun einstaklinga að lækka. Við mat á mælikvörðum skiptir öllu máli að hafa í huga hvað sé ætlunin að mæla í stað þess að láta mæligildin sjálf réttlæta mælikvarðann,“ segir í tilkynningu Hagstofunnar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×