Körfubolti

Jón Arnór: Eitthvað sálfræðilegt að hjá þessu liði

Árni Jóhannsson skrifar
Jón Arnór Stefánsson vann sinn fyrsta bikarúrslitaleik í fyrra.
Jón Arnór Stefánsson vann sinn fyrsta bikarúrslitaleik í fyrra. Vísir/Stefán
KR sigraði nágranna sína í Val með 72 stigum gegn 60 í Domino's deild karla í kvöld. KR hafði tapað síðustu tveimur leikjum sínum fyrir kvöldið og var sigurinn þeim því dýrmætur.

„Það sést alveg langar leiðir að það er eitthvað sálfræðilegt að hjá þessu liði,“ sagði Jón Arnór Stefánsson eftir leikinn.

Jón Arnór, sem er að komast aftur í gang eftir meiðsli, spilaði 20 mínútur í leiknum í kvöld og skoraði 17 stig.

„Við erum að komast að rót vandans og erum að vinna í því að búa til betri stemmingu í liðinu hjá okkur og það vonandi smitar út frá sér upp í stúku og út í KR.“

„Mér finnst vera stemmingsleysi í klúbbnum yfir höfuð og það byrjar hjá okkur. Við þurfum að sýna þeim betri leik þegar áhorfendur koma í höllina að fylgjast með okkur og fara vonandi að styðja okkur í leiðinni. Við erum að reyna að endurvekja þennan KR kúltúr sem hefur verið hérna í gegnum árin.“

„Það er mikil vinningshefð hérna alveg eins og allir vita en mér líður eins og margir séu að sofna á verðinum og við megum ekki láta það gerast,“ sagði Jón Arnór, en KR er fjórfaldur Íslandsmeistari og hafði sigrað bikarmeistaratitilinn síðustu tvö ár áður en Tindastóll hafði betur í bikarúrslitunum nú fyrr í janúar.

Jón Arnór leit mjög vel út í leiknum í kvöld en segist þó ekki vera kominn í sitt besta form.

„Ég þarf að koma mér í betra form og með því kemur ryþmi og einbeiting og við erum að vinna í okkur. Við þurfum allir að stíga upp, æfa betur og vera bara betri á öllum sviðum, rífa fólkið með okkur og búa til góða stemmningu. Það er held ég lykillinn að þessu öllu saman,“ sagði Jón Arnór Stefánsson.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×