Fótbolti

Heimir vill ekki semja strax við KSÍ til að halda möguleikum sínum opnum

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Heimir Hallgrímsson gæti hætt að þjálfa íslenska liðið.
Heimir Hallgrímsson gæti hætt að þjálfa íslenska liðið. Vísir/Getty
Eins og kom fram í Morgunblaðinu í morgun voru samningaviðræður KSÍ og Heimis Hallgrímssonar er varðar nýjan samning fyrir landsliðsþjálfarann settar á ís.

Samningur Heimis rennur út eftir heimsmeistarakeppnina í Rússlandi í sumar og er óvíst hvort að hann stýri Íslandi þegar að Þjóðadeildin hefst í september. Það var Heimir sem ekki vildi semja á þessum tímapunkti.

„Heimir vildi halda sínum möguleikum opnum, það gæti verið að eftir HM komi eitthvað tækifæri upp fyrir hann sem þjálfara. Við skiljum þá afstöðu hans í þessari stöðu og berum virðingu fyrir henni,“ segir Guðni Bergsson í viðtali við fótbolti.net um framtíð Heimis.

Guðni kveðst vera bjartsýnn á að halda Heimi en segir enn fremur að KSÍ ætli að vera tilbúið með varaáætlun fari svo að Heimir yfirgefi landsliðið.

„Við verðum að sjálfsögðu tilbúin með varaáætlun ef til þess kemur en fyrsti kostur er eins og ég segi að semja aftur við Heimi Hallgrímsson,“ segir Guðni Bergsson.

Árangur Heimis hefur eðlilega vakið athygli en eins og kom fram í morgun eru Skotar áhugasamir um að fá hann til starfa.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×