Enski boltinn

Wenger: Óþægileg lífsreynsla að vera í stúkunni á Brúnni

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Arsene Wenger, knattspyrnustjóri Arsenal.
Arsene Wenger, knattspyrnustjóri Arsenal. Vísir/EPA
Arsene Wenger þarf að undirbúa sig fyrir „mjög óþægilegt“ kvöld í áhorfendastúkunni á Stamford Bridge í kvöld.

Chelsea tekur á móti Arsenal í fyrri leik liðanna í undanúrslitum enska deildarbikarsins í kvöld. Wenger má ekki stýra liði sínu frá hliðarlínunni því hann er í banni vegna ummæla sinna um dómarann Mike Dean.

Síðast þegar Arsenal mætti á Stamford Bridge þurfti Wenger einnig að húka upp í stúku. Hann þurfti að sitja á meðal hins almenna áhorfenda þar sem of langan tíma tekur að labba frá búningsherbergjunum í boxið þar sem formennirnir sitja.

„Ég var í miðjum áhorfendaskaranum. Það var mjög óþægilegt og ekki skemmtileg lífsreynsla. En á Stamford Bridge þarftu að fara hinu megin við völlinn til þess að komast í boxið, svo þú missir af 10 mínútum af leiknum,“ sagði Wenger, en hann má tala við lið sitt fyrir leik og í hálfleik og vill því geta farið snögglega á milli.

Hann sagði þó að þrátt fyrir öll óþægindin hafi hann náð að kynnast garðyrkjumanninum sínum þetta kvöld.

„Ég sat við hliðina á manni sem heilsaði mér. Ég heilsaði til baka og svo sagðist hann vera garðyrkjumaðurinn minn. Ég þekkti hann ekki.“

Leikur Chelsea og Arsenal er í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport í kvöld og hefst hann klukkan 20:00.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×