Fyrsta tap City kom á Anfield í sjö marka leik

Anton Ingi Leifsson skrifar
Mane og Robertson fagna marki.
Mane og Robertson fagna marki. vísir/getty
Liverpool varð í dag fyrsta liðið til að bera sigurorð af Manchester City í ensku úrvalsdeildinni þetta tímabilið þegar þeir unnu City í sjö marka leik á Anfield í dag, 4-3.

Alex Oxlade-Chamberlain kom Liverpool yfir með þrumufleyg á áttundu mínútu eftir að hann óð upp hálfan völlinn. Leroy Sane sá til þess að staðan yrði jöfn í hálfeik þegar hann jafnaði á 40. mínútu með skoti á nærstöngina.

Roberto Firmino kom Liverpool eftir tæplega klukkutíma leik og við tók lygilegur níu mínútna kafli hjá Liverpool. Mark Firmino kom eftir að hann saltaði John Stones og kom boltanum skemmtilega framhjá Ederson í markinu.

Það liðu einungis þrjár mínútur þangað til Sadio Mane kom Liverpool í 3-1 eftir að City hafði reynt að spila sig erfiðlega út úr vörninni. Liverpool refsaði þeim illilega fyrir það og leiknum svo gott sem lokið.

Til þess að fullkomna níu mínútna kaflann skoraði Mohamed Salah, en mark hans kom eftir skelfilegt útspark Ederson. Hann sparkaði boltanum beint í fætur Salah sem var fljótur að hugsa og vippaði boltanum yfir Ederson. 4-1 og leiknum virtist svo gott sem lokið.

Varamaðurinn Bernardo Silva náði að minna muninn fyrir City sex mínútum fyrir leikslok þegar boltinn hrökk til hans eftir laglegt spil gestaliðsins í kringum teiginn. Gestirnir voru ekki hættir og Ilkay Gündogan minnkaði muninn enn frekar í uppbótartíma eftir frábæra takta. Nær komust þeir ekki og lokatölur 4-3.

Þetta var fyrsta tap City á tímabilinu, en liðið er þó enn með 15 stiga forskot á Man. United og Liverpool. United getur þó minnkað forskotið með sigri á Stoke á Old Trafford á morgun.

Liverpool hoppaði upp í þriðja sætið með þessum sigri, en liðið með 47 stig í þriðja sætinu, eins og áður segir, með jafn mörg stig og Man. Utd.

x

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira