Handbolti

Öruggt hjá Frökkum gegn Austurríki

Anton Ingi Leifsson skrifar
Abalo skoraði fjögur mörk í kvöld.
Abalo skoraði fjögur mörk í kvöld. vísir/getty
Það var á brattann að sækja fyrir Patrek Jóhanneson og lærisveina hans í Austurríki þegar þeir mættu Frakklandi á EM í Króatíu í kvöld, en leiknum lauk með sjö marka sigri Frakka, 33-26.

Frakkarnir voru sterkari á flestum sviðum handboltans í kvöld og þegar flautað var til hálfleiks voru þeir fimm mörkum yfir, 17-12.

Þeir unnu svo síðari hálfleikinn með tveimur mörkum og að endingu sjö marka sigur hjá firnasterku liði Frakka, en lokatölur eins og áður segir, 33-26.

Timothey N'Guessan var í stuði hjá Frökkum, en hann varð markahæstur með sjö mörk. Næstir komu Luc Abalo, Raphael Cauchetaux og Nedim Remili allir með fjögur mörk.

Hjá Austurríki var hornamaðurinn Robert Weber markahæstur með fimm mörk, en næstur kom Thomas Kandolf með fjögur mörk.

Frakkarnir eru með fjögur stig á toppi riðilsins, en Austurríki er enn án stiga. Í riðlinum eru einnig Noregur og Hvíta-Rússland, en Austurríki mætir Noregi á þriðjudag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×