Enski boltinn

BBC: Mestar líkur á því að Alexis Sanchez fari til Manchester United

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Arsene Wenger fylgist með Alexis Sanchez á æfingu fyrir helgi.
Arsene Wenger fylgist með Alexis Sanchez á æfingu fyrir helgi. Vísir/Getty
Manchester United er í lykilstöðu í kapphlaupinu um Sílemanninn Alexis Sanchez samkvæmt heimildum BBC.

United er tilbúið að borga 35 milljónir punda fyrir Alexis Sanchez en Arsene Wenger, knattspyrnustjóri Arsenal, talaði um það í gær að framtíð Sílemannsins myndi ráðast á næstu 48 klukkutímum.

Alexis Sanchez spilaði ekki með Arsenal í gær og liðið varð að sætta sig við tap á móti Bournemouth.

Alexis Sanchez vill sjálfur helst fara til Manchester City en Manchester United er aftur á móti tilbúið að borga það sem Arsenal vill fá fyrir Alexis sem og hvað Alexis sjálfur vill fá í laun.

Samningur Alexis Sanchez við Arsenal rennur út í sumar. Hann var næstum því farinn til City fyrir 60 milljónir punda í lok ágúst en ekkert varð af því þar sem Arsenal tókst ekki að kaupa Thomas Lemar frá Mónakó.

Pep Guardiola vann með Alexis Sanchez hjá Barcelona og þekkir því vel til hans. Guardiola vill fá Sanchez en það lítur út fyrir að City sé ekki tilbúið að borga stóra upphæð fyrir leikmann sem gæti farið á frjálsri sölu næsta sumar.

Jose Mourinho talaði vel um Alexis Sanchez á blaðamannafundi fyrir helgi og fór ekkert í felur með það að hann hefur mikinn áhuga á því að fá hann til Manchester United.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×