Handbolti

Guðjón Valur: Verðum að vera allt að því grófir

Henry Birgir Gunnarsson í Split skrifar
Við þurfum að hafa Guðjón Val í stuði í dag.
Við þurfum að hafa Guðjón Val í stuði í dag. vísir/ernir
Landsliðsfyrirliðinn Guðjón Valur Sigurðsson var rólegur og yfirvegaður á hóteli íslenska landsliðsins í gær. Ekkert stress. Allt aðstæður sem hann þekkir vel í aðdraganda úrslitaleiks fyrir Ísland á stórmóti.

Guðjón segir að serbneska liðið sé hættulegt því það sé óhefðbundið og beitir mörgum varnarafbrigðum til að mynda.

„Maður þyrfti helst að hafa viku í undirbúning ef maður ætlaði að fara í gegnum allt saman hjá þeim,“ segir Guðjón Valur sem gefur lítið fyrir umræðu um að Ísland eigi að vinna Serba.

„Það er ágætt ef fólk ætlast til þess af okkur því við ætlumst til þess sjálfir. Þetta er samt gríðarlega vel mannað lið. Er maður sér hvaða menn þetta eru og í hvaða liðum þeir eru þá eru þetta engir aukvisar. Við ætlum okkur sigur og verðum að mæta harðir til leiks.“

Það þarf ýmislegt að ganga upp svo þetta verði gott kvöld fyrir íslenskan handbolta.

„Við verðum að spila gríðarlega góða vörn. Við verðum að vera mjög fastir fyrir og allt að því grófir til þess að hleypa þeim ekki upp með neitt. Ef að þeir fá tíma með boltann þá eru þeir ótrúlega klókir. Því minni tími sem þeir fá með boltann því pirraðri verða þeir. Þá fáum við þá vonandi eitthvað af hraðaupphlaupum sem ég held að komi til með að ráða úrslitum í þessum leik,“ segir fyrirliðinn en ef vel fer þá verður gaman í framhaldinu.

„Þá erum við í séns í mótinu. Okkar markmið er að komast áfram og síðan sem lengst. Við ætlum okkur sigur í þessum leik.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×