Handbolti

Formaður HSÍ óljós í svörum um framtíð Geirs Sveinssonar

Magnús Ellert Bjarnason skrifar
Mikið hefur verið rætt og ritað um framtíð Geirs Sveinssonar, landsliðsþjálfara karlalandsliðsins í handbolta, eftir lélegt gengi liðsins á yfirstandandi evrópumóti í Króatíu. Líkt og flestum er kunnugt datt liðið úr keppni eftir 29-26 tap gegn Serbíu síðastliðið þriðjudagskvöld.

Guðmundur B. Ólafsson, formaður HSÍ, var spurður út í stöðu þjálfaramála í íþróttafréttum Stöðvar 2.

„Það sem við munum gera núna er að við förum yfir mótið og metum það. Síðan tökum við ákvörðun um framhaldið."

Sögur herma að Guðmundur Þ. Guðmundsson, fyrrum landsliðsþjálfari, sé í myndinni sem næsti þjálfari landsliðsins og beðið verði með ákvörðunina þar til eftir Asíuleikana, sem nú standa yfir í S-Kóreu, en Guðmundur er landsliðsþjálfari Bahrain.

Hvað hafði formaður HSÍ að segja um þá orðróma?

„Við munum fyrst og fremst núna fara yfir mótið og meta það hvað er best fyrir liðið. Það hefur ekki verið tekin nein ákvörðun og nafn Guðmundar hefur ekkert verið rætt. Við höfum ekki einu sinni kannað það hvort að Guðmundur eða aðrir séu á lausu, þannig að við vitum ekkert um það."

Að lokum var Guðmundur spurður hvort það sé vilji HSÍ að Geir Sveinsson haldi áfram sem þjálfari landsliðsins í komandi umspili um sæti á heimsmeistaramótinu.

„Samningurinn við Geir var framyfir þetta Evrópumót og það lá alveg fyrir að við myndum fara yfir okkkar mál að því loknu og endurmeta okkar stöðu. Við munum reyna að hraða þeirri vinnu eins og við getum og komast að niðurstöðu. Við þurfum að ræða þetta í stjórninni og landsliðsnefndinni en það er ekki komin nein dagsetning á því."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×