Innlent

Twitter-notendur svara Eyþóri með myllumerkinu #TómirVagnar: „Ég skora á hann að taka einhvern tímann strætó“

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Eyþór tók strætisvagna borgarinnar sérstaklega fyrir í grein sinni í Morgunblaðinu á mánudag.
Eyþór tók strætisvagna borgarinnar sérstaklega fyrir í grein sinni í Morgunblaðinu á mánudag. Vísir/Samsett mynd
Twitter-notendur keppast nú við að sýna fram á mikilvægi strætisvagna í Reykjavík undir myllumerkinu #TómirVagnar. Myllumerkið er svar við grein eftir Eyþór Arnalds, sem gefur kost á sér í leiðtogaprófkjöri Sjálfstæðisflokksins í borginni. Greinin birtist í Morgunblaðinu á mánudag og hafði Eyþór þar samgöngumál í Reykjavík til umfjöllunar.

Í grein sinni, Reykvíkingar eiga betra skilið, gagnrýndi Eyþór borgaryfirvöld fyrir að setja hugmyndir um borgarlínu fram sem lausn við samgönguvandanum í Reykjavík og sagði yfirvöld jafnframt hafa „markvisst þrengt að fjölskyldubílnum.“

Þá tók Eyþór strætisvagna borgarinnar sérstaklega fyrir og vísaði þar í árlegt eins millj­arðs króna fram­lag rík­is­ins sem ætlað var til sam­göngu­bóta í Reykja­vík. Borg­ar­yf­ir­völd afþökkuðu framlagið árið 2013 og láta renna til rekst­urs Strætó. Fyrirkomulagið sagði Eyþór misheppnaða tilraun.

„Markmið samningsins var að auka almenningssamgöngur sem hlutfall af ferðum úr 4% í 6%. Nú, fimm árum síðar er hlutfallið ennþá um 4% og hefur því ekkert vaxið. Fimm milljarðar hafa farið forgörðum í þetta tilraunaverkefni og er ljóst að tilraunin hefur mistekist.“

Twitter-notendur sem ferðast með strætó eru, að því er virðist, hreint ekki á því að tilraun borgaryfirvalda hafi mistekist. Björn Teitsson, formaður Samtaka um bíllausan lífsstíl, hvatti til notkunar á hinu kaldhæðnislega myllumerki #TómirVagnar sem sýna á fram á hversu margir taka í raun strætisvagna í Reykjavík.

Hér að neðan má svo sjá fleiri tíst undir myllumerkinu en Davíð Þorláksson, fyrrverandi formaður Sambands ungra sjálfstæðismanna, var til að mynda einn þeirra sem svaraði með mynd af strætisvagni fullum af fólki.

Jóhannes Rúnarsson, framkvæmdastjóri Strætó bs, lét sitt heldur ekki eftir liggja.

Kristófer Alex skoraði á Eyþór að taka sjálfur einhvern tímann strætó.

Hildur Gestsdóttir fornleifafræðingur spurði hvar tómu vagnana væri að finna.

Una deildi skjáskoti af leið númer 6, sem dreifð var víðsvegar um borgina.

Hér fyrir neðan má síðan sjá fleiri myndir úr Strætó teknar víðsvegar um borgina.


Tengdar fréttir

Twitter logar út af menguðu vatni

Fjölgun jarðvegsgerla hefur mælst í kalda vatninu í Reykjavík og er mælst til þess að neysluvatn sé soðið í öllum hverfum borgarinnar nema Grafarvogi, Norðlingaholti, Úlfarsárdal, Kjalarnesi auk Mosfellsbæjar, sem fá vatn frá öðrum svæðum í Heiðmörk.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×