Erlent

Engin banaslys í áætlunarflugi milli landa árið 2017

Nína Hjördís Þorkelsdóttir skrifar
Engin farþegaþota í millilandaflugi fórst árið 2017.
Engin farþegaþota í millilandaflugi fórst árið 2017. Vísir/AFP
Árið 2017 er öruggasta ár í áætlunarflugi milli landa frá upphafi en samkvæmt tölum hollenska ráðgjafarfyrirtækisins To70 var ekki tilkynnt um eitt einasta banaslys  á árinu. Reuters greinir frá.

„2017 var öruggasta árið í flugsamgöngum til þessa,“ fullyrti Adrian Young sem starfar hjá To70.

Flugöryggissamtökin the Aviation Safety Network greindu frá því að þrátt fyrir að ekkert banaslys hafi orðið í farþegaflugi milli landa hafi annars konar flugsamgöngur alls orðið 44 að bana. Hér er átt við farþegaflug innanlands þar sem ekki eru notaðar farþegaþotur til fólksflutninganna heldur farþegaflugvélar [e. airliners].

Þar af létust tólf manns í gær er flugvél flugfélagsins Nature Air, sem var af gerðinni Cessna 208 Caravan, brotlenti á Kosta Ríka.

Ef tölur ársins 2017 eru bornar saman við árið 2016 má þó glöggt greina að banaslysum meðal farþegaflugvéla hefur einnig fækkað umtalsvert en 303 létust í hitteðfyrra í alls 16 slysum.

Farþegum hefur fjölgað jafnt og þétt undanfarin ár.vísir/afp
Flugsamgöngur aukast en slysum fækkar

Flugslysum hefur fækkað jafnt og þétt síðustu tvo áratugina en dauðsföll voru umtalsvert fleiri árlega fyrir rúmum tíu árum en þau eru í dag. Árið 2005 létust til að mynda 1015 manns í farþegaflugi milli landa.

Flugumferð hefur þrátt fyrir þetta aukist til muna síðustu ár en eftirspurn eftir farþegaflugi hefur vaxið um rúmlega sjö prósent að meðaltali á ári frá því 2015.

Síðasta mannskæða flugslys þar sem farþegaþota kom við sögu varð í nóvember 2016. 71 lést í slysinu, þar á meðal 22 leikmenn brasilíska knattspyrnuliðsins Chapecoense. Slysið varð í Kólumbíu og var það rakið til eldsneytisskorts.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×