Viðskipti innlent

Breski vogunarsjóðurinn Lansdowne keypti þrettán milljónir hluta í TM

Kristinn Ingi Jónsson skrifar
Sjóður á vegum Lansdowne er áttundi stærsti hluthafi TM.
Sjóður á vegum Lansdowne er áttundi stærsti hluthafi TM. Vísir/Anton Brink
Sjóður á vegum breska vogunarsjóðsins Lansdowne Partners keypti í síðasta mánuði 13 milljónir hluta í tryggingafélaginu TM. Er hann eftir viðskiptin áttundi stærsti hluthafi félagsins með 4,72 prósenta hlut, en í byrjun desember átti hann um 2,8 prósenta hlut.

Sé tekið mið af meðalgengi hlutabréfa í TM í desember, sem var um 33 krónur á hlut, keypti sjóðurinn þannig hluti í félaginu fyrir um 430 milljónir króna í mánuðinum.

Sjóðurinn á nú samtals 32 milljónir hluta í tryggingafélaginu og er eignarhluturinn metinn á um 1.050 milljónir króna miðað við gengi hlutabréfa félagsins eftir lokun markaða í gær.

Auk fjárfestingarinnar í TM hefur sjóðurinn á undanförnum vikum bætt við sig hlutum í öðru tryggingafélagi, VÍS, olíufélaginu N1 og Fjarskiptum. Hann er á meðal stærstu hluthafa í öllum þessum félögum, með 6,85 prósenta hlut í VÍS, 8,06 prósent í N1 og 9,22 prósent í Fjarskiptum. Til samanburðar átti sjóður Lansdowne um 8,5 prósenta hlut í fjarskiptafélaginu í byrjun síðasta mánaðar.

Auk þess á sjóðurinn 2,85 prósenta hlut í Símanum.

Lansdowne hóf innreið sína á innlendan hlutabréfamarkað síðasta haust. Stuart Roden, stjórnarformaður sjóðsins, hefur látið hafa eftir sér að mikill vöxtur í hérlendri ferðaþjónustu geri landið að ákjósanlegum fjárfestingarkosti.

„Við erum reiðubúnir til þess að fjárfesta á Íslandi þegar landið opnast,“ sagði hann í samtali við Reuters og bætti við að Ísland hefði gengið í gegnum „ótrúleg umskipti“ á undanförnum árum. 

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×