Innlent

Færeyingar telja ákvörðun sjávarútvegsráðherra ólöglega

Høgni Hoydal sjávarútvegsráðherra Færeyja mótmælir því að fiskveiðisamningur Íslands og Færeyja sé felldur úr gildi.
Høgni Hoydal sjávarútvegsráðherra Færeyja mótmælir því að fiskveiðisamningur Íslands og Færeyja sé felldur úr gildi. Samsett mynd
Færeysk stjórnvöld lýsa mikilli undrun sinni á þeirri stöðu sem komin er upp í samningaviðræðum Færeyja og Íslands og hvernig íslensk stjórnvöld kynna hana. Þetta kemur fram í fréttabréfi frá Høgna Hoydal sjávarútvegsráðherra Færeyja.

Í bréfinu er því einnig mótmælt að gildandi fiskveiðisamningur milli Íslands og Færeyja sé felldur úr gildi.

Kristján Þór Júlíusson sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra og Høgni Hoydal hittust á árlegum fundi sem haldinn var í Þórshöfn dagana 12. og 13. desember sl. og ekki náðist samkomulag á fundinum um veiðiheimildir Færeyinga í íslenskri lögsögu og um gagnkvæman aðgang að lögsögum ríkjanna vegna veiða á kolmunna og norsk-íslenskri síld árið 2018. Þá felldi Kristján Þór úr gildi allar heimildir færeyskra fiskiskipa til að stunda veiðar innan íslenskrar lögsögu á árinu.

Í bréfinu segir Høgni að í kjölfar fundsins hafi aðeins verið ákveðið að halda áfram samskiptum sínum til þess að gera nýjan samning fyrir árið 2018 en að svo hafi íslensk stjórnvöld tekið óvænt og einhliða skref. „Tilkynning um stöðu viðræðnanna er ekki í samræmi við afstöðu og upplifun Færeyinga af þeim,” segir Høgni í bréfinu.

Mótmæla þessari ólöglegu aðgerð

Landsstjórn Færeyja undrast framferði íslenskra stjórnvalda og segjast mótmæla þessari ólöglegu aðgerð og hefur Høgni Hoydal ráðfært sig við utanríkismálanefnd færeyska Lögþingsins vegna málsins.

Høgni hafnar því einnig að Færeyingar hafi krafist aukinna heimilda til að veiða á botnfiski í íslenskri lögsögu. „Það er ekki rétt. Um var að ræða hefðbundnar samningaviðræður, þar sem báðir aðilar viðruðu óskir sínar, og tekin upp að nýju þau atriði, sem hafa verið óleyst, og atriði sem aðilarnir hafa orðið sammála um og samið um á síðustu árum,“ segir Høgni í bréfinu.

Hann segist einnig undrast verulega að Ísland skuli hlaupa frá gerðum samningi milli Færeyja og Íslands og að það skuli vera gert eftir að Ísland hefur nýtt sér þá möguleika sem í samningnum felast. Um níutíu prósent af kolmunnaafla Íslands er veiddur í færeyskri lögsögu.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×