Erlent

Húðskamma Bandaríkin fyrir að boða til fundar vegna Íran

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Vassily Nebenzia, sendiherra Rússlands hjá Sameinuðu þjóðunum, ræðir við Nikki Hayley, sendiherra Bandaríkjanna í ráðinu, á fundinum í dag.
Vassily Nebenzia, sendiherra Rússlands hjá Sameinuðu þjóðunum, ræðir við Nikki Hayley, sendiherra Bandaríkjanna í ráðinu, á fundinum í dag. Vísir/afp
Vassily Nebenzia, sendiherra Rússlands hjá Sameinuðu þjóðunum, hefur harðlega gagnrýnt Bandaríkin fyrir að boða öyggisráðið til fundar vegna mótmælanna í Íran. Fundurinn kom ráðinu í opna skjöldu, að sögn stjórnmálaskýrenda, en skiptar skoðanir eru á afstöðu Bandaríkjanna í málinu.

Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna var boðað til fundar í dag til þess að ræða sérstaklega mótmæli stjórnarandstæðinga í Íran. Áður en fundurinn hófst óskuðu Rússar hins vegar eftir lokuðum fundi í ráðinu en þeir telja að Bandaríkin skipti sér of mikið af innanríkismálum í Íran.

Nikki Hayley, sendiherra Bandaríkjanna hjá Sameinuðu þjóðunum, var harðorð í garð stjórnvalda í Íran á fundi öryggisráðsins en greint var ítarlega frá því sem fram fór á fundinum á vef fréttastofunnar CNN.

„Mannréttindi eru ekki gjöf sem ríkisstjórnir geta útdeilt, þau eru óumdeild réttindi fólksins,“ sagði Hayley. Hún ítrekaði einnig að stjórnvöld í Íran væru nú undir „eftirliti heimsbyggðarinnar“ og að með mótmælunum sýndu stjórnarandstæðingar af sér mikið hugrekki.

Sjá einnig: Segir ásakanir æðsta klerksins algjört rugl

Vassily Nebenzia, rússneski starfsbróðir Hayley í öryggisráðinu, gaf lítið fyrir stefnu Bandaríkjanna og húðskammaði þarlend yfirvöld fyrir að fjalla um mótmælin í Íran undir „fölsku yfirskyni.“ Hann sagði að með rökstuðningi Bandaríkjanna hefði á sama hátt verið hægt að boða til fundar í öryggisráðinu um mótmælin í bandaríska bænum Ferguson árið 2014, þar sem ítrekað kom til átaka milli mótmælenda og lögreglu eftir að hvítur lögregluþjónn varð svörtum unglingi að bana.

Franski sendiherrann, Francois Delattre, sagði mótmælin í Íran ekki alþjóðlega ógn við frið og öryggi í heiminum og taldi ekki vænlegt að hafa uppi umræður um þau í öryggisráðinu.

Í vikunni sakaði æðsti klerkur Írans, Ayatollah Ali Khamenei, óvini ríkisins um að standa á bak við mótmælin í landinu en alls hafa nú 22 látist í mótmælunum. Nikki Hayley þvertók fyrir allar ásakanir æðsta klerksins.

Þá sökuðu stjórnvöld í Íran Bandaríkjastjórn, einkum Donald Trump forseta, jafnframt um „viðurstyggileg“ afskipti af innanríkismálum sínum. Þetta mátti lesa í bréfi sem Íranar sendu Sameinuðu þjóðunum.


Tengdar fréttir

Segir ásakanir æðsta klerksins algjört rugl

Nikki Haley, sendiherra Bandaríkjanna hjá Sameinuðu þjóðunum, segir ásakanir Ayatollah Ali Khamenei, æðsta klerks Írans, um að óvinir ríkisins standi á bak við mikil mótmæli í landinu algjört rugl.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×