Innlent

Flutningaskip varð vélarvana í mynni Reyðarfjarðar

Birgir Olgeirsson skrifar
Flutningaskipið varð vélarvana í mynni Reyðarfjarðar.
Flutningaskipið varð vélarvana í mynni Reyðarfjarðar. Loftmyndir ehf
Áhöfn flutningaskipsins Hoffells sendi frá sér neyðarkall eftir að skipið varð vélarvana í mynni Reyðarfjarðar um klukkan sex í dag. Björgunarskip voru kölluð út vegna málsins og fjölveiðiskipinu Jóni Kjartanssyni siglt í átt að Hoffelli. Á níunda tímanum í kvöld bárust þær upplýsingar að Hoffell gengi fyrir eigin vélarafli og væri á hægri leið inn til hafnar í Reyðarfirði í fylgd björgunarskipi og fjölveiðiskipsins Jóns Kjartanssonar.

Þyrla Landhelgisgæslunnar var kölluð út en hún fór í loftið um sjöleytið og lenti svo á flugvellinum við Höfn í Hornafirði. Þar beið áhöfnin frekari fyrirmæla uns hún var kölluð aftur til baka um klukkan hálfellefu. Þá var ljóst að skipið gæti siglt til Eskifjarðar undir takmörkuðu vélarafli.

Um klukkan 23:30 barst tilkynnig frá Samskipum þess efnis að Hoffellið væri komið til hafnar. Þangað sigldi skipið fyrir eigin vélarafli og gekk siglingin að óskum. Hafist verður handa við viðgerð en ekki er vitað hvað hún mun taka langan tíma.

Fréttin var síðast uppfærð klukkan 23:30




Fleiri fréttir

Sjá meira


×