Erlent

Tjón vegna náttúruhamfara í Bandaríkjunum hefur aldrei verið meira

Kjartan Kjartansson skrifar
Gríðarleg flóð fylgdu öflugum fellibyljum sem gengu á land í Bandaríkjunum í ágúst og september.
Gríðarleg flóð fylgdu öflugum fellibyljum sem gengu á land í Bandaríkjunum í ágúst og september. Vísir/AFP
Fellibyljir og skógareldar voru á meðal náttúruhamfara sem ollu meira en þrjú hundruð milljarða dollara tjóni í Bandaríkjunum í fyrra. Kostnaðurinn við tjón af völdum náttúruhamfara hefur aldrei verið meira samkvæmt nýjum tölum Haf- og loftslagsstofnunar Bandaríkjanna (NOAA).

Dýrustu einstöku náttúruhamfarirnar voru fellibylurinn Harvey sem skall á Texas og fleiri ríkjum á suðurströnd Bandaríkjanna í águst og september. Hann olli gríðarlegum flóðum í Houston og nærliggjandi svæðum. Tjónið þar nam um 125 milljörðum dollara, að því er segir í frétt Washington Post.

Harvey er næstkostnaðarsömustu náttúruhamfarir sem gengi ð hafa yfir Bandaríkin. Aðeins Fellibylurinn Katrína árið 2005 olli meira tjóni. Fellibylurinn María sem olli mannskaða og eyðileggingu og heldur áfram að plaga íbúa Púertó Ríko olli 90 milljarða dollara tjóni. Irma, sem skall á Flórída í september, olli tjóni sem nam um 50 milljörðum dollara.

Í heildina urðu sextán veður- og loftslagshamfarir sem ollu milljarðar dollara tjóni eða meira og er það einnig met. Alls fórust 362 í hamförunum og fjöldi manns til viðbótar slasaðist. NOAA gerir ráð fyrir að uppbygging eftir þrjá meiriháttar fellibylji og áframhaldandi elda í vesturhluta Bandaríkjanna eigi eftir að halda áfram langt fram á þetta ár.

Flóð, þurrkar, frost, fellibyljir, stormar og hvirfilbyljir voru á meðal hamfara sem þjökuðu Bandaríkin í fyrra.NOAA NCEI
Mælingar NOAA sýndu jafnframt að árið 2017 var það þriðja hlýjasta í Bandaríkjunum frá því að mælingar hófust fyrir 123 árum. Fimm hlýjustu árin hafa öll verið eftir árið 2006 og árið í fyrra var það tuttugasta og fyrsta í röð þar sem meðalhiti var yfir meðaltali. Öll ríkin á meginlandi Bandaríkjanna og Alaska voru hlýrri en að meðaltali.

Spáð er að hlýnandi loftslag á jörðinni af völdum manna muni leiða til meiri öfga í veðurfari. Tölur NOAA beina því sjónum að því að tjón af völdum náttúruhamfara í framtíðinni gæti orðið enn verra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×