Enski boltinn

Borgarstjóri Liverpool vill að lögreglan rannsaki kaupin á Barkley

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Ross Barkley í leik með Everton.
Ross Barkley í leik með Everton. Vísir/Getty
Borgarstjórinn í Liverpool hefur biðlað til lögregluyfirvalda í borginni að rannsaka hvort kaup Chelsea á miðjumanninum Ross Barkley hafi verið saknæm á einhvern hátt. Liverpool Echo greindi frá.

Barkley skrifaði undir samning við Englandsmeistarana á föstudaginn eftir meira en áratug hjá Everton. Kaupverðið er sagt vera 15 milljónir punda.

Síðasta sumar fóru viðræður um kaup Chelsea á Barkley langt á leið áður en þeim var slitið og þá var kaupverðið 35 milljónir punda. Borgarstjórinn, Joe Anderson, vill meina að Chelsea hafi ráðgert um að lækka verðmiðann á Englendingnum.

Í bréfi sem Anderson skrifaði forráðamönnum enska knattspyrnusambandsins segir að „þetta er lækkun um meira en milljón punda á viku. Það er hægt að líta á þetta þannig að viljandi hafi verðið á leikmanninum verið lækkað til þess að hagnast leikmanninum, umboðsmanni hans og nýja félaginu.“

Það var Barkley sjálfur sem sleit viðræðunum síðasta sumar á loka metrunum. Hann hefur ekki spilað einn einasta leik fyrir Everton á tímabilinu til þessa.

„Ég er með svo miklar áhyggjur yfir atburðarásinni í kringum þessi félagaskipti að ég hef beðið viðeigandi lögregluyfirvöld að rannsaka hvort svik hafi átt sér stað. Sem stjórnmálamaður finnst mér rétt að almenningur verði fullvissaður um að fylgst sé vel með félagaskiptum,“ segir í bréfinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×