Enski boltinn

FA tekur upp Rooney regluna

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Gareth Southgate er landsliðsþjálfari enska A-landsliðs karla. Aldrei hefur aðalliði Englands verið stýrt af öðrum en hvítum karlmanni
Gareth Southgate er landsliðsþjálfari enska A-landsliðs karla. Aldrei hefur aðalliði Englands verið stýrt af öðrum en hvítum karlmanni vísir/getty
Enska knattspyrnusambandið hefur tekið skref í jafnréttisbaráttunni með því að tileinka sér hina svokölluðu Rooney reglu að fordæmi bandarísku NFL deildarinnar.

Reglan, sem nefnd er eftir formanni fjölbreytninefndar NFL deildarinnar Dan Rooney, segir til um að öll félög í deildinni verði að taka að minnsta kosti einn umsækjenda úr hópi fólks af afrískum, asískum eða minnihluta upprunahópum í ráðningarviðtal þegar nýir þjálfarar eða íþróttastjórar eru ráðnir.

FA mun héðan í frá taka sér þetta til fordæmis við allar ráðningar innan sambandsins.

Formaður sambandsins, Martin Glenn, sagði þetta vera skref sem sýndi að „FA er fyrir alla.“

„Sambandið vill verða opnara og sýna rétta mynd af fótboltasamfélaginu eins og það er í dag,“ sagði Glenn við BBC.

Glenn sagði að reglan næði yfir umsækjendur í allar stöður tengdar landsliðum Englands, en allir umsækjendur þyrftu að sína fram á að þeir standist hæfniskröfur, sama hver uppruni þeirra sé.

Félögin í deildarkeppnum Englands tóku upp regluna frá og með 1. janúar síðast liðnum. Það á við um öll félög innan EFL (English Football League) og því eru úrvalsdeildarfélög ekki þar á meðal.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×