Enski boltinn

Aguero tryggði City sigur í uppbótartíma

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Sergio Aguero er markahæsti leikmaður Manchester City frá upphafi
Sergio Aguero er markahæsti leikmaður Manchester City frá upphafi vísir/getty
Sergio Aguero stal sigrinum fyrir Manchester City gegn Bristol City í undanúrslitum enska deildarbikarsins í fótbolta.

Fyrri hálfleikur leiksins var stórkostleg skemmtun og var ekki að sjá að þarna væri 1. deildar lið að mæta liði sem er líklegast besta félagslið í heimi í dag.

Bæði lið sóttu og áttu fjölmörg tækifæri. Það vantaði herslumuninn hjá Bristol og Manchester City náði ekki að nýta sér marktækifæri sem hefðu á flestum dögum dottið með þeim.

Á síðustu mínútum hálfleiksins sótti Bristol að marki City og John Stones felldi Bobby Reid innan vítateigs og fékk dæmda á sig vítaspyrnu. Reid fór sjálfur á punktinn og skoraði framhjá Claudio Bravo í markinu.

Gestirnir frá Bristol fóru með óvænta 1-0 forystu inn til búningsherbergja á Etihad vellinum.

Heimamenn hafa fengið þokkalegan reiðilestur frá Pep Guardiola í leikhléi og var Bristol undir pressu nærri allan seinni hálfleikinn. Kevin de Bruyne var ekki lengi að jafna leikinn, en hann gerði það með skoti af stuttu færi á 55. mínútu.

Bristol-menn gerðu þó vel í því að verjast áhlaupum City og leit allt út fyrir að leikurinn endaði með jafntefli þegar Argentínumaðurinn Sergiio Aguero skoraði á síðustu mínútu uppbótartímans, en hann hafði komið inn sem varamaður á 70. mínútu.

Hörður Björgvin Magnússon var í byrjunarliði Bristol en þurfti að víkja fyrir Liam Walsh á 72. mínútu.

Seinni leikur liðanna fer fram eftir tvær vikur, og myndi 1-0 sigur Bristol þar tryggja þeim sæti í úrslitunum á marki á útivelli.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×