Enski boltinn

Hughes ákvað að hvíla lykilmenn gegn Chelsea

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Mark Hughes getur tekið erfiðu ákvarðanirnar
Mark Hughes getur tekið erfiðu ákvarðanirnar vísir/getty
Mark Hughes mætti ekki með sitt sterkasta lið til Lundúna í gær því hann lagði meiri áherslu á leikinn við Newcastle á morgun, nýársdag.

Stoke steinlá fyrir Chelsea á Stamford Bridge í gær, 5-0. Lykilmenn liðsins tóku ekki þátt í leiknum og má þar helst nefna Xherdan Shaqiri og Joe Allen.

„Þetta var erfið ákvörðun, en ákvörðun sem ég var tilbúinn að taka,“ sagði Hughes eftir leikinn. „Ef við náum sigri gegn Newcastle munu þetta hafa verið góð jól, tveir sigrar, jafntefli og tap gegn Chelsea.“

Tveir af fjórum öftustu leikmönnum Stoke í leiknum voru aðeins átján ára, þeir Josh Tymon og Tom Edwards.

„Við vorum útþynntir í dag. Við vorum með tvo unga stráka sem voru að spila í klassa fyrir ofan það sem þeir eru vanir og þessi fjögurra manna varnarlína hafði aldrei spilað saman áður.“

„Það var vitað að þetta yrði erfiður leikur fyrir okkur. Við gerðum mistök sem lið og einstaklingsmistök. Leikurinn yrði erfiður og þeir eru með hæfileika til að særa okkur, jafnvel með okkar sterkasta byrjunarlið. Ég tók ákvarðanir sem ég tel muni hjálpa okkur á mánudaginn. Við hvíldum leikmenn sem voru með einhver smávægileg meiðsli sem munu verða ferskir og tilbúnir í leikinn,“ sagði Mark Hughes.

Stoke situr í 15 . sæti ensku úrvalsdeildarinnar eftir 21 leik. Newcastle er í 16. sæti, stigi á eftir Stoke.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×