Viðskipti innlent

Hyggst gefa út skuldabréf fyrir allt að 30 milljarða

Kristinn Ingi Jónsson skrifar
Almenna leigufélagið átti 1.214 íbúðir, samtals að stærð 110 þúsund fermetra, í lok júnímánaðar síðastliðins en heildarvirði þeirra nam þá 39,1 milljarði króna.
Almenna leigufélagið átti 1.214 íbúðir, samtals að stærð 110 þúsund fermetra, í lok júnímánaðar síðastliðins en heildarvirði þeirra nam þá 39,1 milljarði króna. Vísir/Vilhelm
Stjórn Almenna leigufélagsins hefur samþykkt að gefa út skuldabréf á markaði fyrir allt að 30 milljarða króna. Stefnir félagið, sem er í eigu sjóðs í rekstri GAMMA Capital Management, að því að gefa út bréf fyrir allt að 6 til 12 milljarða króna í fyrsta útboði, að því er fram kemur í nýrri kynningu félagsins fyrir fjárfesta.

Tilgangur skuldabréfaútgáfunnar er meðal annars að einfalda fjármögnun félagsins og lækka fjármagnskostnað með því að endurfjármagna núverandi skuldir og auka fjölbreytileika í fjármögnun. Er jafnframt gert ráð fyrir að frekari útgáfa skuldabréfa verði nýtt til að stækka eignasafn félagsins. Fyrirtækjaráðgjöf Landsbankans og Lögmenn Lækjargötu veittu félaginu ráðgjöf við gerð útgáfurammans og grunnlýsingar.

Almenna leigufélagið átti 1.214 íbúðir, samtals að stærð 110 þúsund fermetra, í lok júnímánaðar síðastliðins en heildarvirði þeirra nam þá 39,1 milljarði króna samkvæmt verðmati KPMG. Um helming eigna félagsins má finna í Reykjavík og 17 prósent í nágrannasveitarfélögum innan höfuðborgarsvæðisins. Er um 91 prósent af eignasafninu í langtímaleigu.

Stefnt er að skráningu félagsins á hlutabréfamarkað á næstu 18 til 24 mánuðum, en í fjárfestakynningunni er tekið fram að undirbúningur að henni sé þegar hafinn. Felst hann meðal annars í endurfjármögnun skulda, hagræðingu í rekstri og flutningi félagsins í nýjar höfuðstöðvar að Suðurlandsbraut.

Fréttin birtist fyrst í Markaðnum, fylgiriti Fréttablaðsins um viðskipti og fjármál. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×