Innlent

Hurð skall nærri hælum nærri Hellu

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Skjáskot úr myndbandinu sem tekið er úr bíl Bessa. Litlu mátti muna.
Skjáskot úr myndbandinu sem tekið er úr bíl Bessa. Litlu mátti muna. Bessi Jónsson
Óhætt er að segja að litlu hafi mátt muna að alvarlegt bílslys yrði á Suðurlandsvegi nálægt Hellu á miðvikudagsmorgun.

Svo virðist sem skyndileg ákvörðun ökumanns fremstu bifreiðar í fjögurra bíla holli að hægja á sér hafi orðið til þess að ökumaður bílsins fyrir aftan taldi sig þurfa að aka útaf veginum. Beygði hann yfir á rangan vegahelming þar sem Bessi Jónsson kom akandi og munaði sekúndubroti að ekki yrði árekstur.

Bessi birti upptöku úr bíl sínum á Facebook í gær sem sýnir hve litlu mátti muna.

„Djö… munaði minnstu að ég hefði ekki komist heim fyrir jól,“ segir Bessi og er eðlilega ekki skemmt.

Snjór og krapi er á veginum, eins og sést í myndbandinu, og færð því ekki með besta móti.

Sigurður William Brynjarsson tjáir sig um atvik en hann var ökumaður þriðja bílsins. Hann segir fremsta bílinn, sem hann telur hafa verið kínverska ferðamenn, hafa hægt á sér og sá næsti ekið útaf til að forðast hann.

„Ég var þriðji bíllinn. Bremsaði og fékk þann fjórða aftan á mig,“ segir Sigurður. Á honum má skilja að sem betur fer hafi ekki orðið alvarleg slys á fólki.

Rétt er að minna á að aftanákeyrslur eru á meðal algengustu umferðaróhappa hérlendis. Það má meðal annars rekja til of lítils bils á milli bíla. Á vefsíðu Samgöngustofu má finna ráðleggingar um hvernig viðhalda skuli góðu bili milli bila. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×