Enski boltinn

Eboue býr í myrkri af ótta við lögregluna

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Emmanuel Eboué og Arsene Wenger á sínum tíma.
Emmanuel Eboué og Arsene Wenger á sínum tíma. Vísir/Getty
Lífið hefur verið erfitt fyrir fyrrum Arsenal-manninn Emmanuel Eboue eftir að hann hætti í fótbolta. Erfiður skilnaður og andlát tveggja náinna ættingja sendi Eboue á botninn og leiddi meðal annars til hugsana um sjálfsvíg.

Eboe hefur ekki séð börnin sín þrjú síðan í júní. Hann býr einn í húsi sínu í norður London, húsi sem hann átti að skila af sér fyrir þremur vikum síðan, en tapaði öllum eignum sínum í hendur fyrrverandi konu sinnar í skilnaðinum. Hann lýsir ástandinu fyrir blaðamanni Sunday Mirror.

„Ég bý í húsinu en ég er hræddur. Ég veit ekki hvenær lögreglan mun koma. Stundum slekk ég ljósin svo fólk sjái ekki að ég sé inni.“

Eftir sjö ár hjá Arsenal fór Eboue til Galatasaray í Tyrklandi þar sem ferill hans fór að dvína og á síðasta tímabili hans í Tyrklandi fékk hann ekki að spila einn einasta leik með aðalliðinu.

Í mars 2016 ætlaði Eboue að snúa til baka í ensku úrvalsdeildina. Hann samdi við Sunderland 9. Mars. Þremur vikum seinna, 31. mars 2016, setti alþjóðaknattspyrnusambandið, FIFA, Ebou í eins árs bann frá fótbolta þar sem hann hafði ekki borgað umboðsmanni sínum. Í apríl leysti Sunderland hann frá samningi.

Eboue segist ekki hafa kunnað að fara með peninga. Konan hans hafi séð um fjármálin og hann hafi farið eftir slæmum ráðum sem kostuðu hann stórar fjárhæðir. Hann segist ekki hafa vitað af fjárhagsstöðu sinni og í einu skiptin sem hann hafi farið í bankann hafi konan hans verið með í för.

„Peningurinn sem ég fékk, ég sendi hann til konunnar fyrir börnin okkar. Ég þénaði 8 milljónir evra í Tyrklandi. Ég sendi sjö milljónir heim. Ég skrifa undir það sem hún segir mér að skrifa undir,“ sagði Eboue.

„Vandræði mín hjá FIFA eru vegna fólks sem gaf mér ráð. Fólks sem á ekki að standa á sama. En það var vegna þeirra sem FIFA setti mig í bann.“

Þegar Eboue er ekki í myrkvuðu húsi sínu, sem hann þó á ekki lengur, fær hann að gista á stofugólfinu hjá vinkonu sinni. Hann þvær fötin sín í höndunum og ferðast um með neðanjarðarlest og reynir að láta lítið fyrir sér fara.

„Ég held áfram að þakka guði að ég hafi enn líf mitt. Ég myndi ekki óska þessa upp á neinn mann,“ sagði Emmanuel Eboue.

 


Tengdar fréttir

Eboue grýttur í Tyrklandi

Emmanuel Eboue, fyrrum leikmaður Arsenal og núverandi leikmaður Galatasaray, fékk að kynnast því í gær að það er ekkert sældarlíf að spila í tyrkneska boltanum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×