Enski boltinn

Allar stóru dómaraákvarðanir stórleikjanna réttar

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar

Dermot Gallagher er sérstakur dómarasérfræðingur Sky Sports og fer hann yfir helstu atriði hverrar umferðar. Hann var sammála öllum stóru dómunum sem féllu í stóru grannaslögum gærdagsins.

Jose Mourinho sagði eftir tap Manchester United gegn Manchester City að þeir bláklæddu hefðu verið heppnir að labba burt með þrjú stig því United hefði átt að fá vítaspyrnu þegar Ander Herrera féll í teignum eftir viðskipti við Nicolas Otamendi.

„Ef þú horfir á atvikið aftur þá fellur Herrera um sinn eigin fót og Otamendi hreyfir sig ekki. Þetta er klárlega ekki viljandi fella, og nokkuð greinilega ekki vítaspyrna,“ sagði Gallagher.

Herrera fékk gult spjald fyrir dýfu frá Michael Oliver, dómara leiksins. Fyrr í leiknum fór Gabriel Jesus niður í vítateig United. Hvorki var dæmd vítaspyrna né fékk hann spjald fyrir látbragðsleik.

„Þetta er hárrétt ákvörðun. Frammistaða Oliver var framúrskarandi frá upphafi. Það er smá snerting og þess vegna er þetta ekki gult spjald.“

Jurgen Klopp var heldur ekki ánægður með dómara leiks Everton og Liverpool, en hann var ósammála vítaspyrnudómnum sem Everton jafnaði leikinn úr og hann vildi að Gylfi Þór Sigurðsson hefði fengið rautt spjald snemma leiks.

Gallagher var á því að báðar ákvarðanir hafi verið réttar hjá Craig Pawson með flautuna.

„Þetta er ekki fastasta bakhrinding í heimi, en ef þú setur hendur á bak leikmanns þá verður dómarinn að gefa vítaspyrnu.“

„Gult spjald. Ef þú ætlar að reka einhvern útaf verður það að vera vegna því að hann kom öryggi andstæðingsins í hættu. Þetta var óábyrg tækling, en ekki hættuleg,“ sagði Dermot Gallagher.


Tengdar fréttirAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.