Golf

Ólafía: Var með stjörnur í augunum en nú eru þetta vinkonur mínar

Ólafía Þórunn Kristinsdóttir.
Ólafía Þórunn Kristinsdóttir. vísir/getty
Ólafía Þórunn Kristinsdóttir spilaði vel á fyrsta keppnistímabili sínu á LPGA-mótaröðinni og tryggði sér áframhaldandi þátttöku á henni eins og áður hefur komið fram.

Sjá einnig: Ólafía endaði í 73. sæti peningalistans og verður í efsta forgangsflokki á næstu leiktíð

Ólafía er eins og flestir kylfingar nú í fríi þar til að nýtt tímabil hefst snemma á nýju ári og var hún í viðtali í Bítinu á Bylgjunni í morgun.

Þar ræddi hún meðal annars um hvað hafi breyst á hennar fyrsta árí vestanhafs og hvernig upplifun hennar verður á nýju tímabili.

„Nú er þetta orðið mjög venjulegt allt saman fyrir mig,“ sagði Ólafía í viðtalinu. „Áður var ég með stjörnur í augunum en nú erum við jafningjar. Þetta eru vinkonur mínar,“ sagði hún.

Ólafía spilaði nægilega vel á þessu tímabili til að komast í efsta forgangsflokk á mótaröðinni sem gefur henni mun meira frelsi en hún hafði sem nýliði.

„Ég get skipulagt mig betur. Valið hvaða mót ég tek þátt í og verið mjög vel undirbúin fyrir þau mót. Ég þekki vellina betur og þarf því ekki að spila jafn marga æfingahringi - ég mæti til leiks með ákveðna áætlun í huga.“

Ólafía segist hafa staðið sig betur en hún reiknaði með en enn fremur áttaði hún sig á því að henni eru engin takmörk sett.

„Ég sá að ég get náð enn lengra. Ég var í toppbaráttunni í nokkrum mótum, náði fjórða sæti í einu þeirra og ef mér tekst að spila vel þá næ ég að komast í þessa baráttu.“

Ólafía ræddi einnig fjármálahliðina á íþróttaiðkun hennar en hún hefur nú gefið út plaköt sem hún hyggst selja nú fyrir jólin, líkt og sjá má á Facebook-síðu hennar.


Tengdar fréttir

Reyni alltaf að bæta mig um eitt prósent

Kylfingurinn Ólafía Þórunn Kristinsdóttir tryggði sér ekki aðeins áframhaldandi þátttökurétt á sterkustu mótaröð heims, heldur einnig sæti í efsta forgangsflokki sem og þátttökurétt á lokamóti ársins. Þar fá aðeins bestu kylfingar heims að keppa.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×