Handbolti

Umboðsmaður um mál Gísla Þorgeirs: Getur ekkert kvartað

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Í síðustu viku var greint frá því að FH fengi ekki krónu frá Kiel fyrir handboltamanninn efnilega, Gísla Þorgeir Kristjánsson.



Samningur Gísla við FH rennur út í vor og hann gengur þá í raðir Kiel sem Alfreð Gíslason þjálfar.

Hjörtur Hjartarson ræddi um mál Gísla við umboðsmanninn Arnar Frey Theodórsson í Akraborginni á dögunum.

„Nú þarf ég að geta sett mig í nokkur hlutverk. Sem FH-ingur er ég mjög sár að mitt félag fái ekki fullt af peningum fyrir leikmann sem þeir selja út. Sama á við um Óðinn [Þór Ríkharðsson]. Ég veit ekkert hvort þeir fá pening fyrir hann,“ sagði Arnar.

„Þetta kemur niður á einn punkt. Hvað segir samningurinn hans? Þegar menn semja hljóta þeir að vera sammála því sem er í samningnum. Ef þetta er ekkert rætt í samningnum eða í samningaferlinu hljóta menn að vera sáttir með þessa niðurstöðu. Þú getur ekkert kvartað. Þú samdir svona og þannig er það bara.“

FH getur sótt um uppeldisbætur fyrir Gísla til EHF. Arnar hefur ákveðnar skoðanir á þeim.

„Þau eru frekar skrítin að mínu mati og kolólögleg. Segjum að Gísli fari næsta sumar og það er ekki búið að semja um þessi uppeldisgjöld við félagið þarf samt að borga FH fyrir samningslausan leikmann. Bosman-málið var um þetta. Samt er handboltinn enn með þessar reglugerðir,“ sagði Arnar en félagið sem kaupir samningsbundinn leikmann þarf einnig að greiða landssambandinu ákveðna upphæð ef hann hefur spilað landsleiki.

„Þessi upphæð er sett en það má semja um hana. Hún er 800 evrur fyrir hvert tímabil sem þú spilar landsleik eða ert á skýrslu í opinberum landsleik. Þetta safnast upp frá 16 til 23 ára aldurs. Ef þú skiptir eftir 23 ára eru engin uppeldisgjöld. Fyrir félagslið þarftu að vera með atvinnumannasamning og það kostar 2500 evrur fyrir hvert tímabil,“ sagði Arnar sem er m.a. umboðsmaður Arons Pálmarssonar sem fór einmitt frá FH til Kiel fyrir átta árum.

Hlusta má á viðtalið við Arnar í spilaranum hér að ofan.


Tengdar fréttir

Þegar besti þjálfarinn hringdi var þetta engin spurning

FH-ingurinn Gísli Þorgeir Kristjánsson gengur í raðir þýska stórliðsins Kiel næsta sumar. Hann hlakkar til að spila undir stjórn Alfreðs Gíslasonar og ætlar að nýta eina tímabilið sem hann fær undir hans stjórn sem best. Gísli vonast




Fleiri fréttir

Sjá meira


×