Innlent

Vilja byggja helmingi fleiri íbúðir en skipulag gerir ráð fyrir

Sveinn Arnarsson skrifar
Bjarg vill byggja 60 íbúðir í tveimur byggingum.
Bjarg vill byggja 60 íbúðir í tveimur byggingum. vísir/vilhelm
Bjarg íbúðafélag hefur óskað eftir því að fjölga íbúðum um helming á lóð sem það hefur fengið úthlutað í Hraun­skarði í Hafnarfirði. Björn Traustason, framkvæmdastjóri Bjargs, segir fjölda íbúða á lóðinni og kvaðir um ytra útlit húsanna útiloka að hægt sé að byggja hagkvæmar litlar íbúðir fyrir þá tekjulægstu.

Bjarg íbúðafélag er húsnæðissjálfseignarstofnun sem er rekin án hagnaðarmarkmiða og er ætlað að tryggja aðgengi að hagkvæmu, öruggu og vönduðu íbúðarhúsnæði. Félagið var stofnað af BSRB og Alþýðusambandi Íslands og sitja forsvarsmenn þeirra í stjórn Bjargs.

Hinn 30. desember 2016 fékk Bjarg samþykkt stofnframlag ríkisins vegna lóðar fyrir 32 íbúðir í sex litlum fjölbýlum við Hraunskarð. Ljóst var að sá fjöldi væri ekki hagkvæmur og var óskað eftir fjölgun íbúða um tíu og var það samþykkt í maí á þessu ári.

Nú fer Bjarg fram á að geta byggt 60 íbúðir í tveimur byggingum í stað 42 íbúða í samtals sex fjölbýlishúsum. „Það er okkar mat að skipulagið hamli því að við getum byggt hagkvæmar litlar íbúðir. Markmiðið er að byggja íbúðir fyrir lægstu tekjutíundirnar og því þurfum við að byggja hagkvæmt til að verkefnið standi undir sér,“ segir Björn.

Erindi Bjargs var tekið til umræðu á fundi skipulagsráðs Hafnarfjarðar í gær. Málið verður unnið áfram í bæjarkerfinu með Bjargi og von verður á niðurstöðu í málinu á fyrsta fundi nefndarinnar á nýju ári, sem áætlaður er þann 9. janúar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×