Umfjöllun og viðtöl: Stjarnan - Tindastóll 80-86 | Stólarnir fara með sigur í jólafríið

Ástrós Ýr Eggertsdóttir í Ásgarði í Garðabæ skrifar
Tindastóll hélt í við hin liðin þrjú á toppi Domino’s deildar karla í körfubolta í kvöld með sigri á Stjörnunni í Ásgarði í síðasta leik 11. umferðarinnar. 

Bæði lið byrjuðu leikinn þokkalega með skotsýningu þar sem þristarnir duttu eins og enginn væri morgundagurinn. Fljótlega tóku heimamenn þó undirtökin í leiknum og fóru að spila vörn sem olli Stólunum vandræðum.

Í öðrum leikhluta fór svo verulega að halla á gestina, skotin hættu að detta og þeir fundu engar lausnir á meðan flest gekk upp hjá Stjörnunni. Leikmenn Tindastóls gerðu mikið af því að keyra í átt að körfunni og senda boltann svo út, ógnuðu í raun aldrei körfu andstæðingsins.

Það breyttist þó í þriðja leikhluta, þeir hættu að leita út og fóru að sækja sniðskotin og það skilaði þeim árangri. Þeir breyttu varnarskipulaginu og áður en langt var liðið voru þeir búnir að jafna leikinn. Heimamenn virtust hafa misst kraftinn og það var lítil barátta eftir.

Stjörnumenn gáfust þó ekki upp og héldu í við gestina út allan leikinn, þó Tindastólsmenn væru skrefinu framar út allan lokaleikhlutann. Þeir fóru að lokum með 80-86 sigur og eru áfram í fjórða sæti deildarinnar með 16 stig, líkt og ÍR, KR og Haukar fyrir ofan þá. 



Afhverju vann Tindastóll?

Í raun út af því að Stjörnumenn hættu að berjast. Það skiptast oft á skin og skúrir í körfuboltanum og þegar gestirnir náðu áhlaupi í byrjun seinni hálfleiks virtist Stjarnan missa kraftinn. En það má þó ekki taka það af gestunum að þeir voru að spila hörku vörn mestan hluta leiksins og voru að hitta vel úr skotum sínum þegar vel gekk.

Hverjir stóðu upp úr?

Tölfræðilega séð var Pétur Rúnar Birgisson framúrskarandi, og það sást líka á vellinum. Sigtryggur Arnar Björnsson skilaði sínu að vanda og Antonio Hester er á góðri leið að komast aftur í form.

Hjá Stjörnunni er enginn leikmaður sem nær meira en 13 í framlag, sem gefur ágæta mynd af leik þeirra. Sherrod Wright og Eysteinn Bjarni Ævarsson voru þeirra skástir.

Hvað gekk illa?

Hér verður að nefna Hlyn Bæringsson. Maðurinn sem svo oft ber þetta Stjörnulið á herðum sér fann sig ekki í kvöld. Annars var ekkert sem gekk endilega svo illa í leik Stjörnumanna, nema að það var eins og ekki væri nóg eftir á tanknum snemma í seinni hálfleik. Varnarleikurinn hefði getað verið betri, en leikurinn tapaðist ekki á því að varnarleikurinn væri slæmur.

Hvað gerist næst?

Nú fara liðin í ágætis jólafrí, næsta umferð er spiluð 4. janúar. Stjarnan fær annað landsbyggðarlið í heimsókn þegar sigurlaust lið Hattar mætir í Garðabæinn. Stólarnir eiga hörkuleik við ÍR-inga, en liðin hafa mæst tvisvar í Síkinu í vetur og skipt með sér sigrunum, í báðum leikjum voru viðureigninrnar hörkuspennandi.

Stjarnan-Tindastóll 80-86 (28-23, 25-16, 13-29, 14-18)

Stjarnan: Sherrod Nigel Wright 17, Róbert Sigurðsson 13, Tómas Þórður Hilmarsson 12/6 fráköst, Eysteinn Bjarni Ævarsson 12/8 fráköst, Arnþór Freyr Guðmundsson 8, Hlynur Elías Bæringsson 6/11 fráköst/5 stoðsendingar, Egill Agnar Októsson 6, Collin Anthony Pryor 6, Viktor Marínó Alexandersson 0, Grímkell Orri Sigurþórsson 0, Dúi Þór Jónsson 0, Bjarni Geir Gunnarsson 0.

Tindastóll: Pétur Rúnar Birgisson 26/7 fráköst, Sigtryggur Arnar Björnsson 17/4 fráköst/5 stoðsendingar, Antonio Hester 12/6 fráköst, Brandon Garrett 9/5 fráköst, Viðar Ágústsson 8/5 fráköst, Björgvin Hafþór Ríkharðsson 6, Axel Kárason 4/4 fráköst, Helgi Rafn Viggósson 4, Hannes Ingi Másson 0, Helgi Freyr Margeirsson 0, Hlynur Freyr Einarsson 0.



Israel: Erum með 10 manna varnarlið

„Mér líður frábærlega,“ sagði Israel Martin, þjálfari Tindastóls, eftir leikinn. „Sérstaklega afþví við erum lið. Við þurfum ekki stór nöfn í liðið okkar, við spilum bara af hörku. Í dag er sigurinn okkar leikmönnunum að þakka. Þeir börðust vel og spiluðu hart, allir sem komu inn á í dag gáfu allt sitt í leikinn.“

„Þetta er okkar einkenni. Að spila af hörku og spila eins og lið, hafa trú á okkur sjálfum.“

Þrátt fyrir að vera fjórtán stigum undir í hálfleik hafði Israel ekki miklar áhyggjur.

„Við vitum að við erum sterkir varnarlega og þá mun sóknin koma. Við erum ekki með of marga leikmenn sem geta skorað 20 stig í hverjum leik, en allir spila vörn. Við erum með 10 manna varnarlið.“

„Við smíðum okkar sókn út frá vörninni,“ sagði sigurreifur Israel Martin.

Hrafn: Eigum að vera fúlir

Þjálfari Stjörnunnar, Hrafn Kristjánsson, var að vonum niðurdreginn eftir leikinn. „Mér finnst að við eigum að vera fúlir og sárir. Mér finnst við alveg vera með lið sem að getur unnið Tindastól.“

„Þetta er bara leikur áhlaupa, körfuboltinn. Þeir tóku áhlaup og við vorum aðeins of lengi að jafna okkur og því fór sem fór. Við vorum búnir að byggja okkur upp ansi góða stöðu, en það er helvíti hart að missa þetta svona frá sér.“

Hrafn var á tíðum ósáttur með dómgæslu leiksins, en sagði þó ekki að sér hafi fundist halla á sitt lið.

„Við vorum ekki að fá á okkur margar villur í fyrri hálfleik, mér reyndar fannst þeir ekkert vera að sækja neitt sérstaklega mikið á körfuna þá. Það var alltaf viðbúið að þeir myndu breyta leik sínum og láta okkur hafa meira fyrir því og þá bara gerast hlutir, það er ekki eins og maður sé hlutlaus.“

„Þetta lið hefur mikla möguleika. Þó við höfum tapað þá finnst mér liðið hafa sýnt fína tilburði í dag. Það eru svo sannarlega leikir í þessum fyrstu sex umferðum sem við erum með augun á og finnst við hafa átt að taka,“ sagði Hrafn.

Hrafn sagðist ekki hafa áhyggjur af því að hans lið gæti misst af sæti í úrslitakeppninni miðað við stöðuna í deildinni í dag.

„Við bara endum þar sem við eigum skilið að enda,“ sagði Hrafn Kristjánsson.

Pétur: Israel tók reiðiskast í hálfleik og við rifum okkur í gang

Pétur Rúnar Birgisson var lang besti maður vallarins í dag, ef horft er til stigaskors og tölfræði, með 26 stig.

„Ég er búinn að vera svolítið upp og niður í vetur, þetta var ein af nokkrum skotsýningum, það má deila um það hvort ég hafi verið svona í allan vetur.“

En hvað réði úrslitunum fyrir Stólana í kvöld?

„Varnarleikurinn í seinni hálfleik. Hann tók smá reiðiskast í hálfleiknum og við tókum það á okkur og svöruðum kallinu og komum frábærlega inn í þriðja leikhluta, komumst yfir og náðum að halda það út.“

„Sóknarlega vorum við allt í lagi allan leikinn, varnarlega þurftum við að rífa okkur í gang. Í fyrri hálfleiknum voru þeir að setja niður öll sín skot, við vorum svolítið á eftir þeim og þeir voru að fá opin skot, en í seinni hálfleik breyttum við varnarleiknum og það gerðum við vel,“ sagði Pétur.

Hann sagði það lífsnauðsynlegt fyrir liðið af fara með sigur í jólafríið eftir tvo tapleiki í röð í deildinni.

Hlynur: Hefðum unnið ef ég hefði spilað betur

„Þetta var mjög dapurt bara hjá okkur, í seinni hálfleik. Þeir komu miklu kröftugri og áttu meira inni, þess vegna er þetta grautfúlt því við gerðum margt fínt í fyrri hálfleik,“ sagði Hlynur Bæringsson eftir tapið.

Hann var stundum nokkuð ósáttur með dómara leiksins, en sagði það þó meira hafa verið pirringur sem hefði átt að beinast að sjálfum sér.

„Ætli maður sé ekki frekar pirraður út í eitthvað annað en sjálfan sig þegar maður er að spila illa eins og ég var að gera. Dómararnir voru ekkert vondir við mig.“

„Mér fannst þessi kraftur í þeim,“ svaraði Hlynur aðspurður hvað hafi ráðið úrslitum.

„Ef maður á að vera alveg hreinsskilinn þá ef ég hefði spilað betur þá hefðum við getað unni. En við vinnum þetta saman og töpum þessu saman. En lífið heldur áfram og við verðum betri eftir áramót.“

Hlynur hafði þó ekki miklar áhyggjur af því að tapið myndi eyðileggja jólahald hjá honum, enda tapað nokkrum körfuboltaleikjum áður á ferlinum. Hann segir það helst vera kraftin sem vanti í þeirra leik.

„Nokkrir leikir sem hefðu getað dottið okkar megin. En það eru nokkrir menn hjá okkur sem eru að standa upp. En við getum spilað varnarlega, ef ég á að nefna eitthvað eitt,“ sagði Hlynur Bæringsson.

 

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira