Erlent

Dularfullt andlát einna ríkustu hjóna Kanada

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Barry Sherman stofnaði eitt stærsta lyfjafyrirtæki heims.
Barry Sherman stofnaði eitt stærsta lyfjafyrirtæki heims. Vísir/Getty
Kanadíski milljarðamæringurinn Barry Sherman og eiginkona hans Honey Sherman fundust látin á heimili sínu í Toronto. Lögregla telur að andlát þeirra hafi borið að með grunsamlegum hætti. BBC greinir frá.

Fasteignasali fann lík hjónanna, sem voru meðal ríkustu hjóna Kanada, í kjallara heimilis þeirra. Sherman stofnaði og stýrði lyfjafyrirtækinu Apotex, einu stærsta lyfjafyrirtæki heims. Var hann vel þekktur í Kanada og minntist Justin Trudeau hjónanna á Twitter í dag.

Hjónin höfðu nýverið sett heimili sitt á sölu og var fasteignasalinn að undirbúa svokallað opið hús til þess að sýna áhugasömum kaupendum húsið.

Lögregla var kölluð til er fasteignasalinn fann líkin um hádegisbil í gær.

„Það lítur út fyrir að andlát þeirra hafa borið að með grunsamlegum hætti og við erum að rannsaka málið með það til hliðsjónar,“ sagði lögreglufulltrúi við fjölmiðla.

Talið er að persónulegur auður Sherman hafi numið allt að 3,2 milljarða dollara, um 330 milljarðar íslenskra króna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×