Umfjöllun, viðtöl og myndir: ÍR - Grindavík 97-90 | ÍR tyllti sér á toppinn

Magnús Ellert Bjarnason skrifar
vísir/ernir
ÍR tyllti sér á topp Domino’s deildar karla í körfuknattleik með góðum sigri á Grindavík í 9. umferð í kvöld. Lokatölur 97-90.

Leikurinn var í járnum lengst af og skiptust liðin á að taka forystuna. Gestirnir úr Grindavík voru þó ívið sterkari í fyrri hálfleik og leiddu 46-43, þegar liðin gengu til búningsherbergja. Dagur Kár Jónsson hitti nánast að vild utan af velli í fyrri hálfleik og þá var Sigurður Þorsteinsson öflugur undir körfunni.

ÍR mætti öflugra til leiks í síðari hálfleiknum. Ryan Taylor var hreint út sagt magnaður og þá stjórnaði Matthías Orri Sigurðarson leik sinna manna eins og herforingi. Þeir bættu jafnt og þétt í og þegar að þriðji leikhluta var lokið höfðu þeir náð 5 stiga forystu, 72-67.

Heimamenn bættu einungis í í 4. leikhluta og virtist sem að þeir höfðu meira bensín á tanknum á lokamínútunum en gestirnir úr Grindavík. Þeir voru auk þess klókari í sínum leik. Komu sér trekk í trekk á vítalínuna og settu flest sín vítaskot niður. Á sama tíma voru gestirnir klaufar í vörn og brutu alltof oft á ÍR mönnum og þá sérstaklega á Ryan Taylor, sem olli þeim vandræðum frá fyrstu mínútu. Þá klikkuðu þeir á mikilvægum skotum og tóku of oft rangar ákvarðanir í sóknarleik sínum.

Auk þess munaði miklu að landsliðsmaðurinn Ólafur Ólafsson náði sér engan veginn á strik í liði gestanna og endaði leik með einungis 6 stig.

Lokatölur urðu 97-90 fyrir ÍR sem eru komnir með fjórtán stig og sitja á toppi deildarinnar sem fyrr sagði, allavega í bili, en Grindavík eru með átta og hafa nú tapað þrem leikjum í röð.

Af hverju vann ÍR?

Þeir eru með Ryan Taylor en Grindavík ekki. Svo einfalt er það. Hann var hreint út sagt stórkostlegur í kvöld og réðu stóru menn Grindavíkur ekkert við hann. Ef hann heldur svona áfram eru fáir leikmenn í deildinni sem eiga roð í hann. Fyrir utan 35 stigin sem hann setti hirti hann 11 fráköst, var öflugur í vörninni og auk þess duglegur að mata samherja sína.

Þá voru ÍR einfaldlega klókari í lokaleikhlutanum sem fyrr sagði og lönduðu sigrinum á vítalínunni.

Áhugaverð tölfræði: 

Þrátt fyrir að Grindavík lutu í lægra haldi unnu þeir frákastabaráttuna í kvöld, en þeir tóku 42 fráköst gegn 34 fráköstum heimamanna.

Hverjir stóðu uppúr? 

Eins og komið hefur fram var Ryan Taylor yfirburðarmaður hér í kvöld. Þá var Matthías Orri flottur sem fyrr í liði heimamanna með 23 stig og 6 fráköst.

Í liði gestanna voru þeir Dagur Kári og Sigurður Þorsteinsson bestir. Dagur með 22 stig og Sigurður með 21 stig.

Hvað gerist næst?

ÍR halda á Ásvelli næsta fimmtudag þar sem þeir mæta Haukum. Á sama tíma fá Grindvíkingar spræka Valsmenn í heimsókn.

ÍR-Grindavík 97-90 (23-27, 20-19, 29-21, 25-23)

ÍR: Ryan Taylor 35/11 fráköst/4 varin skot, Matthías Orri Sigurðarson 23/6 stoðsendingar, Danero Thomas 21/5 fráköst, Sæþór Elmar Kristjánsson 9/4 fráköst, Sigurkarl Róbert Jóhannesson 5, Daði Berg Grétarsson 3, Trausti Eiríksson 1/4 fráköst.

Grindavík: Dagur Kár Jónsson 22/5 stoðsendingar, Sigurður Gunnar Þorsteinsson 21/12 fráköst, Rashad Whack 21, Ingvi Þór Guðmundsson 11, Ólafur Ólafsson 6/8 fráköst, Ómar Örn Sævarsson 4/6 fráköst, Þorsteinn Finnbogason 3, Jóhann Árni Ólafsson 2/5 stoðsendingar.

Borce: Stoltur af strákunum mínum

Borce Ilievski, þjálfari ÍR, var að vonum sáttur í leikslok, enda tylltu hans menn sér á toppi deildarinnar með þessum sigri.

„Það er augljóst að landsleikjahléið gaf okkur mikið „boozt“. Þrátt fyrir að það hafi vantað menn og Sveinbjörn [Claessen] hafi verið veikur gekk einhvernveginn allt upp í seinni hálfleik þegar við löndum sigrinum, bæði sóknar- og varnarlega,“ sagði Borce eftir leik.

Hann vildi sjá meiri kraft í sínum mönnum í seinni hálfleik.

„Ég hafði áhyggjur af því í fyrri hálfleik hversu þöglir mínir menn voru, sem er ólíkt þeim. En þeir stigu upp í seinni hálfleik og voru gríðarlega flottir,“ sagði Borce. 

„Sérstaklega Ryan Taylor, hann var magnaður eins og alltaf. Ég er mjög stoltur af strákunum mínum. Við viljum vera áfram á toppnum en við vitum að þetta er langt tímabil.“

vísir/ernir
Jóhann Þór: Að skora 90 stig á að vera nóg

„Ég er svekktur. Við vorum ekkert arfaslakir en við fáum á okkur 97 stig sem er bara alltof mikið. Að skora 90 stig á að vera nóg,“ sagði Jóhann Þór Ólafsson, þjálfari Grindavíkur, í leikslok.

Þetta var þriðji tapleikur Grindavíkur í röð og augljóst að það vegur þungt á Jóhanni.

„Það er ljóst að við erum að ganga í gegnum erfiða tíma. En þetta er jöfn deild og það geta allir unnið alla. Við eigum tvo leiki fyrir jól og erum staðráðnir í því að gera betur í þeim og snúa þessu við,“ sagði Jóhann.

„Ryan Taylor var okkur erfiður í kvöld. Við vorum líka að fá á okkur alltof mikið af soft villum sem gerði okkur erfitt fyrir í baráttunni gegn honum.“

Ryan Taylor: Ég spilaði bara minn leik

Maður leiksins, Ryan Taylor, var sammála blaðamanni að þetta hafi verið besti leikur hans í ÍR treyjunni.

„Ég spilaði bara minn leik og sem betur fer gekk allt upp hjá mér. Skotin mín voru að detta niður, ég komst oft á vítalínuna og fann samherja mína,“ sagði Taylor.

„Það var gott að komast aftur út á völlinn eftir þessa pásu og það var smá eins og deildin væri að byrja aftur.“

Þrátt fyrir að ÍR séu nú á toppi deildarinnar er Ryan ekkert að missa sig í gleðinni.

„Mér líður að sjálfsögðu vel eftir þennan leik. Mér gekk vel og liðinu líka, en þetta er langt tímabil og nóg af leikjum eftir,“ sagði Taylor.

„Við verðum að halda áfram og passa okkur að fara ekki of hátt upp og halda að þetta sé komið. Næsti leikur er á fimmtudaginn og við verðum að spila jafn vel þá.“

Ernir Eyjólfsson, ljósmyndari Fréttablaðsins og Vísis, var í Seljaskóla í kvöld og tók myndirnar hér að neðan.

Taylor sækir að vörn Grindavíkur.vísir/ernir
Ryan Taylor átti frábæran leik fyrir ÍR.Vísir/Ernir
Borce og lærisveinar hans eru komnir á topp Domino's deildarinnar.vísir/ernir
Jóhann Þór ræðir við sína menn.vísir/ernir
vísir/ernir

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira