Innlent

Lýsa eftir erlendum ferðamanni á níræðisaldri

Kjartan Kjartansson og Þórdís Valsdóttir skrifa
Lögreglan er ekki með mynd af manninum og styðst aðeins við takmarkaða lýsingu á honum.
Lögreglan er ekki með mynd af manninum og styðst aðeins við takmarkaða lýsingu á honum. Vísir/Eyþór
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu lýsir eftir bandarískum ferðamanni sem ekkert hefur spurst til frá því að hann kom til landsins á fimmtudag. Maðurinn er 83 ára gamall, fæddur árið 1934.

Ferðamaðurinn heitir Michael Roland Sasal. Lögreglan er ekki með mynd af honum og hefur einungis takmarkaða lýsingu. Hann er sagður með þunnt grátt hár og notar gleraugu. Ekkert er vitað um klæðnað hans.

„Ég sendi póst á öll hótel í landinu til að grennslast fyrir um hann því hann hafði komið í fyrradag til landsins með flugi frá Washington og síðan hefur ekkert spurst til hans frá því hann kom út úr flugstöðinni,“ segir Gunnar Hilmarsson aðalvarðstjóri hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu. Hann hefur ekki fengið nein viðbrögð frá þeim hótelum sem fengu tölvupóst.

Michael ætlaði að hitta konu á Hótel Kríunesi við Elliðavatn en hann kom ekki. „Hann er ekki með síma og notar ekki samfélagsmiðla,“ segir Gunnar.

Lögreglan hefur staðfest að hann fór í gegnum vegabréfaskoðun í Leifsstöð og er því á landinu. Gunnar segir að lögreglan hafi ekki enn verið í sambandi við fjölskyldu mannsins vestanhafs.

Þess er óskað að ef einhverjir verða hans varir eða viti um ferðir hans þá verði haft samband við lögregluna á höfuðborgarsvæðinu í síma 444-1000.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×