Íslenski boltinn

Sautján ára strákur tryggði Blikum jafntefli á móti KR

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Vísir/Anton

Breiðablik og KR gerðu 1-1 jafntefli í Bose mótinu í Egilshöllinni í kvöld en Blikar jöfnuðu undir lokin. Jafnteflið tryggði Blikum sigur í leiknum og sæti í úrslitaleiknum.

Björgvin Stefánsson kom KR-ingum í 1-0 í fyrri hálfleik og það leit lengi vel út að það mark myndi tryggja Vesturbæjarliðinu sigurinn.

Hinn sautján ára gamli Kolbeinn Þórðarson var hinsvegar á öðru máli en hann jafnaði metin rétt fyrir leikslok.

Björgvin kom til KR-inga á dögunum en hann fór á kostum með Haukum í  Inkasso-deildinni síðasta sumar þar sem hann skoraði 14 mörk í 19 leikjum. Hann á aftur á móti ennþá eftir að sanna sig í Pepsi-deildinni.

Blikar unnu 8-1 sigur á Víkingum og KR-ingar hefðu því þurft að vinna mjög stórt til að taka af þeim efsta sætið.

Breiðablik og Stjarnan munu spila til úrslita um Bose bikarinn en KR mætir Fjölni í leiknum um þriðja sætið.

Markið hjá Vestbæjarliðinu í kvöld var reyndar af skrautlegri gerðinni.  

Björgvin Stefánsson fékk þá boltann á silfurfati í teignum eftir að Pálmi Rafn Pálmason vann boltann af sofandi varnarmanni Blika. Markið kom á 25. mínútu leiksins.

Kolbeinn Þórðarson var hinsvegar réttur maður á réttum stað undir lokin og kom boltanum yfir marklínuna af stuttu færi. Blikar höfðu pressað mikið á lokamínútunum og markið var búið að liggja í loftinu.
Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.