Enski boltinn

Kompany: United á móti City er mikilvægasti leikur heims

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Knattspyrnustjórar Manchester-liðanna, Jose Mourinho og Pep Guardiola.
Knattspyrnustjórar Manchester-liðanna, Jose Mourinho og Pep Guardiola. vísir/getty
Vincent Kompany, miðvörður Manchester City, segir engan leik skipta jafnmiklu máli og Manchester-slaginn sem fram fer á sunnudaginn í ensku úrvalsdeildinni.

City-liðið er búið að vinna þrettán leiki í röð og er átta stigum á undan United fyrir leikinn en United er í öðru sæti deildarinnar og verður án Paul Pogba í leiknum.

Kompany skoraði sigurmark í Manchester-slag árið 2012 þegar að City vann ensku úrvalsdeildina í fyrsta skiptið en hann segir ríginn á milli liðanna stærri en einhver stig í ensku úrvalsdeildinni.

„Ég ýti eiginlega á pásu í lífinu þegar að það kemur að borgarslagnum. Tímabilið skiptir mig þá ekki lengur máli. Lífið snýst um þennan leik,“ segir Kompany í viðtali við Sky Sports.

„Knattspyrnustjórar og leikmenn eiga það til að tala niður þennan leik en mér er alveg sama. Það er algjört kjaftæði. Þessi leikur er sá mikilvægasti í heimi fyrir mér.“

„Hann skiptir meira máli en nokkuð annað og ég mun gefa allt sem ég á. Það skiptir engu máli í hvaða sætum liðin eru þegar að þau mætast. Ég vil bara geta gengið af velli með höfuðið hátt,“ segir Vincent Kompany.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×