Fótbolti

Jóhann Berg býst við að vera 95 prósent í vörn á móti Messi og félögum á HM

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Jóhann Berg Guðmundsson.
Jóhann Berg Guðmundsson. Vísir/Getty
„Það var skrítið að vera hluti af drættinum. Þetta var allt svolítið súrrealískt,“ segir Jóhann Berg Guðmundsson, landsliðsmaður Íslands í fótbolta, í viðtali við Lancashire Telegraph, um þá skemmtilegu staðreynd að Ísland er á leiðinni á HM 2018.

Strákarnir okkar drógust í riðil með Argentínu, Króatíu og Nígeríu í D-riðil HM síðastliðinn föstudag og vitaskuld hlakkar Jóhann mikið til.

„Það er enn þá langt í mótið en HM er það stærsta í heimi. Það er rosalega stórt fyrir minnstu þjóðina í sögu HM að komast þangað. Við erum alltaf á leiðinni í sögubækurnar, sama hvað gerist. Það er gaman.“

Jóhann viðurkennir að drátturinn hefði getað verið auðveldari en fagnar því að mæta Messi eftir að hafa þurft að kljást við Cristiano Ronaldo á EM í fyrra.

„Messi er einn sá besti, ef ekki sá besti, sem hefur nokkurn tíma snert fótbolta. Það verður mjög gaman að spreyta sig á móti honum,“ segir Jóhann.

„Við vitum að þetta verður erfitt. Við eigum eftir að verjast 95 prósent leiksins en á þessum fimm prósent tímans sem við verðum með boltann gætum við spilað smá fótbolta, skorað mark og komið fólki á óvart,“ segir Jóhann Berg Guðmundsson.


Tengdar fréttir

Rómantískt að fá Argentínu

Fyrsti leikur Íslands á HM verður á móti Lionel Messi og félögum í Moskvu 16. júní. Leiðir Íslendinga og Króata liggja saman enn á ný og þá mæta íslensku strákarnir fyrrverandi Afríkumeistaraliði Nígeríu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×