Skoðun

Íslensk gagnaver finna fjölina sína

Jóhann Þór Jónsson skrifar
Draumurinn um að laða erlenda tækni- og tölvurisa til Íslands hefur lengi einkennt umræðuna um uppbyggingu gagnaversþjónustu á Íslandi. Draumurinn um að einhver hinna stóru, Google, Apple eða Facebook, reisi hér gagnageymslu hefur þannig yfirskyggt starfsemi þeirra átta fyrirtækja sem hafa skipulega byggt upp sína þjónustu hérlendis á undanförnu árum með góðum árangri. Í stað þess að bíða þess sem verða vildi hafa þau sýnt frumkvæðið, fundið stóra og smáa viðskiptavini um allan heim, selt þeim margvíslega þjónustu á sviði upplýsingatækni og skapað í leiðinni mikil verðmæti fyrir íslenskt samfélag.

Gagnaversiðnaðurinn er fjölbreyttari en margan grunar, því hann snýst ekki um það eitt að varðveita gögn heldur líka um vinnslu þeirra. Og það er einmitt í gagnavinnslunni sem mikil tækifæri liggja fyrir Ísland, enda reiðir hún sig í minni mæli á gagnatengingar en hefðbundin gagnavistun þar sem öll gögn þurfa ávallt að vera aðgengileg fyrir alla og gagnaflutningsgetan getur reynst flöskuháls. Gagnavinnslan snýst þannig um að nýta reiknigetu öflugra tölvusamstæða, svokallaðra ofurtölva, til að samkeyra gríðarlegan fjölda gagnapunkta í því skyni að leysa flókin tölfræðileg verkefni af ýmsum toga. Þar skiptir gagnaflutningsgeta minna máli, þar sem afrakstur vinnunnar er sendur til verkkaupans að henni lokinni.

Þannig voru íslenskar ofurtölvur nýverið notaðar í byltingarkenndri læknisfræðitilraun, sem unnin var í samstarfi læknadeildar Stanford háskóla í Bandaríkjunum og þýsk-ameríska tæknifyrirtækisins Ubercloud. Með flókinni hermun á starfsemi hjartans var líkt eftir áhrifum lyfjagjafar á hjartað, til að minnka hættuna á því að lyfjagjöf valdi hjartsláttartruflunum og auðvelda læknum að meta hvaða lyf hentuðu sjúklingi best. Verkefnið (The Living Heart Project) hefur vakið gríðarlega athygli og á síðustu vikum hlotið þrenn verðlaun. Sama rannsóknarteymi er nú ásamt Indversku tauga- og geðrannsóknarmiðstöðinni (NIMHANS) að hefja rannsóknir á heilanum, þar sem rannsakað verður hvernig megi hafa áhrif á og meðhöndla geðklofa. Í þeirri rannsókn fer flókin gagnaúrvinnsla fram í íslenskum ofurtölvum.

Ýmsar aðrar atvinnugreinar sækjast í að framkvæma sína útreikninga og hermanir í íslenskum gagnaverum. Má þar nefna bílaframleiðendur, veðurstofur og tryggingafélög sem öll hafa þörf fyrir gríðarlega reiknigetu fyrir flókna útreikninga. Hérlendis skapar samspil hita og raka kjöraðstæður fyrir ofurtölvur, en ítarlega er fylgst með afköstunum þar sem vélarnar eru gríðarlega dýrar og hvert prósent í afköstum því mikilvægt. Ekki skemmir fyrir að kolefnissporið er miklu minna en víðast hvar, sem skiptir erlenda samstarfsaðila sífellt meira máli. Þá krefst starfsemin mikillar þjónustu, t.d. við uppsetningu og bestun hugbúnaðar, og hér hefur því skapast mikil og verðmæt sérþekking í iðnaði sem er í miklum vexti. Nýjustu afkastamælingar sýna að ofurtölva á Íslandi afkastar 6-7% meira en algengt er erlendis, þökk sé hagstæðum ytri aðstæðum og þekkingu íslenskra sérfræðinga.

Spurn eftir þjónustu af þessu tagi mun að öllum líkindum aukast hratt á næstu misserum, enda má spara bæði tíma og fyrirhöfn með því að hanna, þróa og álagsprófa vörur með stafrænum hætti í gagnaveri áður en til framleiðslu kemur og koma í veg fyrir að að gallaðar vörur rati í hendur neytenda.

Þótt rekstrarumhverfi íslenskra gagnavera hafi breyst til hins betra á undanförnum árum eru enn fjölmörg ónýtt tækifæri í greininni. Í mati sínu á því hversu auðvelt er að stunda viðskipti í ríkjum heims setur Alþjóðabankinn Ísland í 23. sæti, á meðan Danmörk er í þriðja sæti, Noregur í áttunda og Svíþjóð í tíunda. Það sama gildir um skattaumhverfið þar sem Ísland er í 29. sæti, langt að baki samkeppnisríkjum eins og Írlandi, Danmörku og Kanada. Úr þessum þurfum við að bæta, svo halda megi áfram að skapa verðmæti til hagsbóta fyrir land og þjóð. Áherslur nýrrar ríkisstjórnar gefa ástæðu til bjartsýni, enda er rík áhersla lögð á nýsköpun, menntun og þróun í stjórnarsáttmálanum sem undirritaður var í síðustu viku. Hugverkaiðnaður og skapandi greinar verða drifkraftur breytinga á komandi árum og því mun uppbygging tæknilegra innviða auka möguleika hugverkaiðnaðarins á að skapa aukin verðmæti.

Höfundur er formaður Samtaka Gagnavera (DCI) og forstöðumaður rekstrar hjá Advania Ísland ehf.

Greinin birtist fyrst í Markaðnum, fylgiriti Fréttablaðsins um viðskipti og fjármál. 




Skoðun

Sjá meira


×