Erlent

Rússar æfir yfir vetrarólympíuleikabanni

Kjartan Kjartansson skrifar
Fána Rússlands verður ekki flaggað í Suður-Kóreu á næsta ári.
Fána Rússlands verður ekki flaggað í Suður-Kóreu á næsta ári. Vísir/AFP
Ákvörðun Alþjóðaólympíunefndarinnar að banna Rússum að taka þátt í vetrarólympíuleikunum í Suður-Kóreu á næsta ári hefur vakið mikla reiði í Rússlandi. Mikhail Gorbatsjev, fyrrverandi leiðtogi Sovétríkjanna, kallar bannið meðal annars „yfirgengilegt.“

Ástæða bannsins ef umfangsmikið lyfjasvindl rússneskra íþróttamanna sem rannsóknarnefnd Alþjóðaólympíunefndarinnar hefur ályktað að rússensk stjórnvöld hafi skipulagt. Rússneskir íþróttamenn sem geta sýnt fram á að þeir noti ekki ólögleg lyf geta keppt á leikunum en ekki undir fána Rússlands.

„Þetta er bara slæmt og það er allt saman. Þetta eru íþróttir, fjandinn hafi það,“ sagði Gorbatsjev um bannið við rússneska ríkisíþróttafréttastofu, að sögn Washington Post.

Vladimír Pútin, forseti Rússlands, hefur þó farið varlega í yfirlýsingar. Talsmaður hans segir ólíklegt að hann muni tjá sig um bannið í dag.

Áttu við þvagsýni á rannsóknarstofu í Sotsjí

Upplýsingar um víðtækt svindl Rússa byggja meðal annars á framburði Grigory Rodtsjenkov, rússnesk læknis, sem skipulagði það fyrir þarlend yfirvöld að hans eigin sögn. Hann er nú í vitnavernd í Bandaríkjunum.

Rodtsjenkov, sem var yfirmaður rannsóknarstofu lyfjaeftirlits í Rússlandi, greindi meðal annars frá því hvernig að Rússar hefðu átt við þvagsýni úr rússneskum íþróttamönnum í rannsóknarstofum á vetrarleikunum í Sotsjí árið 2014. Tilgangurinn var að fela steranotkun þeirra.

Íþróttamálaráðuneyti Rússlands hefur hafnað ásökununum og fullyrt að Rodstjenkov hafi verið einn að verki. Sjálfur óttast Rodtsjenkov að rússnesk stjórnvöld reyni að ná sér niður á honum. Hann telur að skyndilegt andlát annars fyrrverandi yfirmanns rússneska lyfjaeftirlitsins megi rekja til þess að hann ætlaði að skrifa bók um reynslu sína.

Fjallað er um flótta Rodtsjenkov frá Rússlandi til Bandaríkjanna í Netflix-heimildamyndinni „Íkarusi“.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×