Erlent

Refsiaðgerðum haldið áfram þar til Rússar draga sig frá Úkraínu

Kjartan Kjartansson skrifar
Tillerson gaf ekkert eftir með refsiaðgerðir gegn Rússum á fundi ÖSE. Óvíst er þó hversu lengi hann verður í embætti utanríkisráðherra áfram.
Tillerson gaf ekkert eftir með refsiaðgerðir gegn Rússum á fundi ÖSE. Óvíst er þó hversu lengi hann verður í embætti utanríkisráðherra áfram. Vísir/AFP
Rex Tillerson, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, fullyrðir að refsiaðgerðum gegn Rússum verði ekki aflétt fyrr en þeir draga hersveitir sínar frá Úkraínu.  Sakar hann Rússa um að vopna, þjálfa og berjast með uppreisnarmönnum í nágrannaríkinu.

Á fundi með utanríkisráðherrum Öryggis- og samvinnustofnunar Evrópu (ÖSE) talaði Tillerson enga tæpitungu um ábyrgð Rússa á ástandinu í Úkraínu, að því er kemur fram í frétt Reuters.

Fleiri en tíu þúsund manns hafa fallið í átökum í austurhluta landsins frá árinu 2014. Rússar hafa neitað að þeir taki þátt í átökunum eða sendi vopn til uppreisnarmannanna.

„Við förum fram á við Rússa og bandamenn þeirra að binda enda á áreiti, ógnanir og árásir á sérstakar sendinefndir ÖSE,“ sagði Tillerson eftir að hann hafði fullyrt að Rússar hefðu átt upptökin að átökunum.

Afstaða Tillerson er töluvert harðari en Donalds Trump Bandaríkjaforseta. Forsetinn hefur talað við bættum tengslum við Rússa og Vlaidmír Pútín forseta þeirra. Á sama tíma stendur hins vegar yfir opinber rannsókn á því hvort að Rússar hafi reynt að tryggja Trump sigur í forsetakosningunum í fyrra og hvort að framboð Trump hafi átt í samráði við þá.

Þá hafa heimildir hermt að Trump hefði í hyggju að reka Tillerson úr ríkisstjórninni á næstunni. Forsetinn hefur þó neitað því. Samskipti þeirra hafa virst stirð, ekki síst eftir að fréttir voru sagðar af því að Tillerson hefði kallað Trump „fávita“ í sumar.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×