Erlent

Komust að samkomulagi í Brexit-viðræðunum

Gunnar Reynir Valþórsson skrifar
Theresa May og Jean Claude Juncker voru hæstánægð á blaðamannafundinum í morgun.
Theresa May og Jean Claude Juncker voru hæstánægð á blaðamannafundinum í morgun. Vísir/Getty
Nægileg framvinda hefur náðst í Brexit viðræðum Breta og Evrópusambandsins til að færa þær á annað stig.

Þetta staðfesti Jean Claude Juncker, forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, í morgun en þetta þýðir að nú verður hægt að fara að ræða hvernig sambandi Bretlands og Evrópusambandsins verður háttað eftir að Bretar hverfa úr ESB - ekki síst þegar kemur að viðskiptum.

Theresa May, forsætisráðherra Breta, kom til Brussel í morgun eftir næturlangan fund þar sem síðustu úrlausnarefnin um viðskilnaðinn voru útkljáð.

Helsti ásteytingarsteinninn var hvernig landamæragæslu á milli Bretlands og Írlands, sem er í Evrópusambandinu, verði háttað. May segir núna að engin eiginleg landamæri verði þar á milli, það er að segja með fullri landamæragæslu eins og hefðbundið er á landamærum ESB og annarra ríkja.  Þá munu ríkisborgarar ESB ríkjanna geta búið og starfað áfram í Bretlandi eins og hingað til.

Augljós málamiðlun

Juncker sagði á blaðamannafundi í morgun að niðurstöðurnar væru augljóslega til marks um málamiðlun milli Breta og ESB. Þær hefðu reynst báðum semjendum mjög erfiðar. May tók í sama streng og lýsti því hvernig þau hafi bæði þurft að gefa ýmislegt eftir til að geta fengið öðru fram.

Norður-Írar á breska þinginu, sem styðja ríkisstjórn May, höfðu lýst sig andsnúna því að landamæralínan yrði dregin við Írlandshaf, sem þýddi að Norður Írland myndi lenda ESB-megin við línuna, þótt landsvæðið tilheyri Bretum.

Þess í stað virðist hafa verið ákveðið að hafa engin eiginleg landamæri á milli írska lýðveldisins og Bretlands.

Leiðtogar Norður-Íra á þinginu hafa fagnað framvindunni í málinu en slá þó þann varnagla að enn sé mikil vinna framundan. Hvort þeir muni styðja úrgöngu Breta úr ESB muni ráðast alfarið af því hvernig lokasamningurinn muni líta út.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×