Innlent

LBHÍ hrindir af stað aðgerðum til að meta umfang kynbundins ofbeldis í skólanum

Ingvar Þór Björnsson skrifar
Sæmundur segir að frásagnir kvennanna hafi opnað augu hans fyrir því hversu útbreitt það er í háskólasamfélaginu að karlar traðki á mannréttindum kvenkyns nemenda og vísindakvenna.
Sæmundur segir að frásagnir kvennanna hafi opnað augu hans fyrir því hversu útbreitt það er í háskólasamfélaginu að karlar traðki á mannréttindum kvenkyns nemenda og vísindakvenna. Vísir/Pjetur
Landbúnaðarháskóli Íslands ætlar að hrinda af stað aðgerðum til þess að meta umfang kynbundins ofbeldis innan stofnunarinnar og til þess að stemma stigum við að slíkt ofbeldi viðgangist.

„Þetta viljum við gera með könnunum, skýrum verkferlum og fræðslu til starfsfólks og nemenda,“ segir í yfirlýsingu Sæmundar Sveinssonar, rektors Landbúnaðarháskólans, vegna kynbundins ofbeldis gegn konum í vísindum.

Sæmundur segir að frásagnir kvennanna hafi opnað augu hans fyrir því hversu útbreitt það er í háskólasamfélaginu að karlar traðki á mannréttindum kvenkyns nemenda og vísindakvenna. „Ég er í senn miður mín og bálreiður eftir þennan lestur. Flest okkar sem stundað hafa nám og starfað hafa innan háskóla, eiga margar góðar minningar um skemmtilegar bekkjarsystur og frábærar vísindakonur sem kenndu okkur eða leiðbeindu í rannsóknum. Það er hryllilegt að uppgötva að margar þeirra hafi upplifað ofbeldi eða áreitni og algjörlega ólíðandi að slíkt viðgangist,“ segir hann.

„Sem rektor hef ég mikla ábyrgðartilfinningu gagnvart nemendum og starfsfólki þessarar menntastofnunar. Ég heiti því að gera allt sem í mínu valdi stendur til þess að tryggja að allir nemendur og starfsfólk geti stundað nám og unnið sitt starf, án þess að þurfa að óttast að verða fyrir barðinu á kynbundnu ofbeldi og áreitni. Enn fremur verða nemendur og starfsfólk upplýst um ferla til að tilkynna slíkt ofbeldi, auk afleiðinga þess að gerast uppvís að því að beita slíku ofbeldi,“ segir Sæmundur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×