Viðskipti innlent

Hugbúnaðarfyrirtækið Greenqloud selt á 5,3 milljarða króna

Daníel Freyr Birkisson skrifar
Novator, fjárfestingafélag Björgólfs Thors Björgólfssonar, átti 13,4 prósent hlut í Greenqloud.
Novator, fjárfestingafélag Björgólfs Thors Björgólfssonar, átti 13,4 prósent hlut í Greenqloud. vísir/gva
Fyrrverandi eigendur íslenska hugbúnaðarfyrirtækisins Greenqloud fengu samtals 51 milljón dala þegar bandaríska félagið NetApp festi kaup á því fyrr á árinu. Upphæðin nemur 5,3 milljörðum íslenskra króna en vefsíðan Northstack greinir frá.

Omega Iceland, félag í eigu Novator, fjárfestingafélags Björgólfs Thors Björgólfssonar, átti í Greenqloud 13,4 prósent og fékk það 6,8 milljónir dala í sinn hlut. KP Holding, félag Birkis Kristinssonar, átti 11,6 prósent hlut og fékk 5,9 milljónir dala í sinn hlut. Meson Holding átti síðan 1,1 prósent en það er félag Vilhjálms Þorsteinssonar.

Stærstu hluthafar Greenqloud voru hins vegar Kjölur fjárfestingarfélag með 38,8 prósent hlut, NSA Ventures með 15,8 prósent og Kelly Ireland með 7,5 prósent hlut.

Vísir greindi frá kaupunum í ágúst en um var að ræða fyrstu kaup Fortune 500 fyrirtækis á íslensku hugbúnaðarfyrirtæki. Markmið kaupanna er að styrkja leiðandi stöðu NetApp á markaði hybrid skýjaþjónustu.

Sjá einnig:NetApp kaupir íslenska hugbúnaðarfyrirtækið Greenqloud

Greenqloud var stofnað árið 2010 af Eiríki Hrafnssyni og Tryggva Lárussyni og var fyrsta fyrirtæki í heimi til þess að bjóða upp á skýjaþjónustu sem eingöngu var rekin á endurnýjanlegri orku. Eftir að Jónsi Stefánsson, forstjóri Greenqloud, var ráðinn til fyrirtækisins í mars 2014 hefur megináhersla verið lögð á að þróa Qstack; sérhannaða hugbúnaðarlausn sem getur á auðveldan hátt stýrt skýjalausnum og tölvuþjónum fyrirtækja.

NetApp, Inc. var stofnað 1992 en hefur verið skráð sem Fortune 500 fyrirtæki frá árinu 2012, sem gerir það að einu stærsta fyrirtæki Bandaríkjanna fimm ár í röð. Höfuðstöðvar þess eru í Sunnyvale, Kaliforníu, en fyrirtækið sérhæfir sig í geymslukerfum og utanumhaldi gagnavera ásamt því að vera leiðandi og í mikilli sókn þegar kemur að hybrid skýjaþjónustu.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×