Innlent

Stundin krefst endurupptöku á Melaskólamálinu

Jakob Bjarnar skrifar
Jón Trausti ætlar ekki að greiða Dagnýju 200 þúsund krónur refjalaust.
Jón Trausti ætlar ekki að greiða Dagnýju 200 þúsund krónur refjalaust.
Stundin krefst endurupptöku á dómi sem féll yfir þáverandi blaðamanni miðilsins, Hjálmari Friðrikssyni, sem dæmdur var til að greiða Dagnýju Annasdóttur, fyrrverandi skólastjóra Melaskóla, 200 þúsund krónur. Sá kostnaður fellur á blaðið.

„Dómurinn var felldur án þess að Stundin gripi til varna, þar sem við misstum af þingfestingu málsins og Vilhjálmur Vilhjálmsson lögmaður var ófáanlegur til þess að fresta og gefa okkur færi á að halda vörnum,“ segir Jón Trausti Reynisson ritstjóri Stundarinnar. Hann bætir því við að þau á Stundinni ætli ekki að gefast upp heldur fara þegar fram á endurupptöku málsins.

Umdeildur skólastjóri

Eins og fram kom í frétt Vísis í morgun var um talsvert hitamál að ræða en hart var sótt að þáverandi skólastjóra, bullandi óánægja var meðal ýmissa þeirra sem að skólastarfinu komu, með Dagnýju eins eins og Vísir greindi frá. Dagný hugðist meðal annars fara fram með eineltismál á hendur ótilgreindum hópi.

Óhætt er að segja að gustað hafi um Dagnýju og Melaskóla en átökunum lauk með því að gerður var starfslokasamningur við skólastjórann.
Ummælin sem Hjálmar hefur eftir ónafngreindum heimildarmanni, í óbeinni ræðu eru: „Hún stjórnar með harðri hendi og leggur fólk í einelti.“ Og: „Hún er sögð vanhæf til skólastarfs, stýri skólanum af vankunnáttu, og sumir kennarar upplifi einelti af hennar höndum.“

Fráleitt að telja ummælin úr lausu lofti gripin

Jón Trausti segir það hafa legið fyrir í umfjöllun fleiri fjölmiðla að 30 kennarar hafi lýst því yfir að þeir myndu hætta störfum ef hún starfaði áfram sem skólastjóri. „Bekkjarfulltrúar töldu skólastarfinu „ógnað“, samkvæmt sameiginlegri yfirlýsingu þeirra, vegna starfshátta skólastjórans. Það er því varla hægt að fallast niðurstöðu sem felur í sér að ummælin séu fengin úr lausu lofti, hvað þá spunnin upp.“

Þá bendir hann á að ekki sé tekið tillit til neinna efnisatriða í dómnum öðrum en þeim sem „Vilhjálmur Vilhjálmsson og skólastjórinn færðu fram. Samt er einfalt gúggl nóg til að sjá hvað gekk á þarna í skólanum, áður en skólastjórinn hætti að vilja stórs hluta starfsfólks.“

Heimildamaðurinn stígur fram

Hjálmar, sem nú starfar á DV, upplýsti svo í Facebookhópi sem kallast Fjölmiðlanördar, að sá heimildarmaður sem hann vitnaði til væri reiðubúinn að stíga fram.

Hjálmar Friðriksson segir að heimildamaður sinn sé nú tilbúinn að stíga fram. Og þá er að sjá hvort dómsstólar líti til þess.
„Fyrst þetta er komið fram hér þá verð ég eiginlega að leggja spilin á borðið. Heimildarmaður minn í þessu máli var þáverandi trúnaðarmaður kennara í skólanum. Hún gat þá ekki komið fram undir nafni vegna stöðu sinnar en var reiðubúin að gera það núna þegar ég spurði hana á dögunum. Þar sem að lögum samkvæmt á viðkomandi fjölmiðil að greiða kostnað sem fellur af svona málum lét ég Stundina alfarið um að reka málið. Ég lét ritstjóra þar vita að þessi kona væri tilbúin að bera vitni. Svo gerist það í morgun að ég sé þennan dóm. Vonandi vinnst þetta í Hæstarétti.“

Staða gagnvart heimildamönnum

Málið snýr þannig að stöðu blaðamanns gagnvart heimildarmönnum sínum. Óvíst er að það hafi gildi í sjálfu sér þó heimildamaður sé leiddur fram, trúnaður blaðamanna við heimildamenn sína verður að vera yfir vafa hafið. Reyndar er blaðamönnum meinað í lögum um fjölmiðla (25. grein) að upplýsa um heimildarmenn hafi þeir óskað nafnleyndar.

Starfsmönnum fjölmiðlaveitu er jafnframt óheimilt að láta af hendi gögn sem hafa að geyma upplýsingar um heimildarmann eða höfund í slíkum tilvikum.“ En, Stundin mun þó fyrir dómi geta sýnt fram á svo óyggjandi er að Hjálmar var ekki að búa þetta til.


Tengdar fréttir

Kennarauppreisn í Melaskóla

30 kennarar hóta að hætta ef Dagný Annasdóttir tekur aftur við sem skólastjóri Melaskóla.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×