Erlent

Lofar nýjum störfum í nýju lýðræðisríki

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Emmerson Mnangagwa, næsti forseti Simbabve, ávarpar mannfjölda í Harare í dag.
Emmerson Mnangagwa, næsti forseti Simbabve, ávarpar mannfjölda í Harare í dag. vísir/getty
Næsti forseti Simbabve, Emmerson Mnangagwa, lofar nýjum störfum í Simbabve sem verður nýtt lýðræðisríki undir hans stjórn.

Þetta sagði Mnangagwa þegar hann ávarpaði stuðningsmenn sína í dag en hann flúði til Suður-Afríku fyrir tveimur vikum eftir að Robert Mugabe, fyrrverandi forseti landsins, rak hann úr embætti varaforseta.

„Við viljum bæta efnahag okkar, við viljum frið og við viljum störf, störf og aftur störf,“ sagði Mnangagwa við mannfjölda sem var kominn í höfuðborga Simbabve, Harare, til að fagna honum.

 

Mnangagwa mun taka við embætti forseta á föstudag og gegna því þar til í september á næsta ári en þá eru fyrirhugaðar forsetakosningar.

Brottrekstur hans úr embætti varaforseta leiddi til þess að herinn tók völdin í Simbabve og þvingaði Mugabe til þess að segja af sér, sem hann gerði í gær. Afsögn hans var fagnað um allt Simbabve en Mugabe var við völd í áratugi og var í raun einræðisherra sem stjórnaði þjóð sinni með harðri hendi.

Mnangagwa boðar breytta tíma í Simbabve en efnahagur landsins hefur versnað mikið á liðnum árum og telja ýmsir að atvinnuleysi sé allt að 90 prósent. Þá hefur óðaverðbólga ríkt í landinu og náði hún hámarki árið 2008. Það kemur síðan í ljós hvort að Mnangagwa mun breyta einhverju í Simbabve þó að hann lofi ýmsu fögru nú. 


Tengdar fréttir

Nærri fjörutíu ára valdaskeið nú á enda

Robert Mugabe sagði af sér simbabveska forsetaembættinu í gær. Afsagnarbréf hans var óvænt lesið upp á þingfundi þar sem rætt var um embættissviptingartillögu á hendur honum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×