Viðskipti innlent

Markaður Gló í Fákafeni lokar: „Við erum svolítið kaupmaðurinn á horninu“

Daníel Freyr Birkisson skrifar
Petrea Ingileif Guðmundsdóttir er framkvæmdastjóri hjá Gló.
Petrea Ingileif Guðmundsdóttir er framkvæmdastjóri hjá Gló. Vísir/Ernir
„Við erum bara að skerpa fókusinn okkar á matsölunni,“ segir Petrea I. Guðmundsdóttir framkvæmdastjóri Gló. Veitingastaðakeðjan tilkynnti á dögunum að heilsuverslun þeirra í Fákafeni 11 yrði lokað.

Aðspurð segir Petrea að það geti reynst erfitt að keppa við stórmarkaði í sölu á heilsuvörum, úrvalið hafi aukist þar. „Við vorum í ákveðnu brautryðjendastarfi en núna er auðveldara að fá heilsuvörur í stórmörkuðum en áður var. Aðgengi að heilsuvörum er alltaf að verða betra fyrir neytendur.“

„Við erum svolítið kaupmaðurinn á horninu. Þetta er auðvitað bara lítil verslun. Við erum í raun bara að skerpa fókusinn því það að vera með eina verslun er kannski ekki mjög hagkvæmt,“ bætir Petrea við.

Hún segist sjá tækifæri fyrir Gló í kjölfar breytinganna. „Við erum að sjá aukningu í morgunverðarsölu. Fólk er í meira mæli að grípa sér morgunmat, bæði inni á staðnum og til að taka með. Við ætlum í breyttri eftirspurn að laga okkar starfsemi að því sem viðskiptavinurinn vill.“

Tonic barinn og veitingastaðurinn munu fá aukið pláss eftir að verslunin lokar. „Viðskiptavinurinn vill það sem við seljum á Tonic. Djúsar, kaffi og morgunverður. Inni í búðarrýminu verður stór, flottur Tonic bar og setusvæði,“ segir Petrea.

Gló rekur fyrir fjóra veitingastaði en sá fyrsti opnaði árið 2007.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×