Skoðun

Stöðvum stafrænt ofbeldi!

Ásta Jóhannsdóttir skrifar
Stafrænt ofbeldi og stafrænt kynferðislegt ofbeldi er sívaxandi vandamál sem í miklum mæli beinist gegn konum og er bein ógn við lýðræðisþátttöku kvenna.

Stafrænt ofbeldi er ný birtingarmynd á gamalkunnu ofbeldi, á nýjum vettvangi. Stafrænt ofbeldi fer fram á netinu og er t.d. áreitni eða ofsóknir, auðkennisþjófnaður eða fjárkúgun og óleyfileg dreifing á persónulegum gögnum svo sem ljósmyndum og myndböndum án samþykkis.



Kvenréttindafélag Íslands stóð í ár að samnorrænni rannsókn á stafrænu ofbeldi, þá sér í lagi reynslu þolenda af því að leita réttlætis. Í rannsókninni voru tekin viðtöl við þolendur, lögreglu og lögfræðinga sem hafa reynslu af því að vinna með þolendum stafræns ofbeldis. Erfiðlega gekk að finna konur til að taka þátt í rannsókninni, ekki vegna þess að konur hefðu ekki reynslu af ofbeldi -- fjölmargar búa að þeirri reynslu -- heldur vegna þess að fæstar höfðu reynt að leita réttlætis í kjölfar ofbeldisins. Þær höfðu vantrú á réttarkerfinu og töldu til lítils að leita hjálpar eða kæra.

Fæstir þátttakendur í rannsókninni upplifðu að réttlæti hefði verið náð í þeirra málum. Þær töldu lögregluna ekki hlusta nægilega vel, að hún væri stundum óviss um hvernig ætti að takast á við stafrænt ofbeldi. Rannsóknin leiddi þó einnig í ljós að lögreglan gerir sér grein fyrir því að ekki sé nægilega vel staðið að málaflokkinum og vill vinna að úrbótum, en til þess vanti aukið fjármagn og skýra löggjöf.

Ekkert Norðurlandanna hefur sett löggjöf gegn stafrænu ofbeldi. Þingmenn sem taka sæti á nýju Alþingi þurfa að leggja áherslu á að ýta í gegn löggjöf gegn stafrænu ofbeldi og stafrænu kynferðisofbeldi. Slík löggjöf er nauðsynleg til að aðstoða lögreglu og löggjafavald til þess að takast á við þessi mál af meiri festu en nú er gert.

En skýr löggjöf er aðeins eitt skref af mörgum sem þarf að taka til að breyta málunum. Við þurfum að tryggja að þolendur stafræns ofbeldis séu teknir alvarlega og glæpirnir rannsakaðir. Við þurfum að breyta verklagsreglum og viðhorfum innan lögreglunnar. Við þurfum að tryggja fjármögnun til að berjast gegn stafrænu ofbeldi, bæði til yfirvalda og til samtaka sem veita þolendum aðstoð, lagalega sem og sálfræðilega. Og við þurfum að fræða almenning, sérstaklega ungt fólk, um alvarleika stafræns ofbeldis og áhrif þess.

Hægt er að lesa rannsóknina á vefsíðu Kvenréttindafélagsins, https://kvenrettindafelag.is/stafraentofbeldi.



Höfundur er félagsfræðingur og félagskona í Kvenréttindafélagi Íslands.




Skoðun

Sjá meira


×