Innlent

Framkvæmdir fara fram þrátt fyrir hótun um málsókn

Hersir Aron Ólafsson skrifar
Hótun Varðmanna Víkurgarðs um málsókn vegna fyrirhugaðra framkvæmda á Landssímareitnum hefur ekki áhrif á framgang málsins. Þetta segir formaður borgarráðs. Fornleifafræðingur segir einstaklinga innan hópsins hafa ráðist að sér persónulega með afar niðrandi athugasemdum og framkomu.

Líkt og sagt var frá í kvöldfréttum í vikunni hefur hópur sem kallar sig varðmenn Víkurgarðs mótmælt harðlega þeirri byggingu hótels, verslana og íbúða sem fyrirhuguð er í þessu gamla kirkjugarðslandi kringum Landsímareitinn. Vala Garðarsdóttir, sem stýrði uppgrefti á svæðinu í fyrra, hefur aftur á móti margítrekað gagnrýnt málflutning hópsins. Þannig segir hún að fornminjum á svæðinu hafi verið raskað fyrir margt löngu síðan og fyrirhugaðar framkvæmdir muni tæplega breyta miklu þar um. Segir hún enn fremur all algengt að skipulagi sé breytt í fornum kirkjugörðum og megi sjá dæmi þess víða um heim, t.a.m. í Kaupmannahöfn, Osló og Lundúnum. 

Líkt og fram kom í frétt Vísis í dag segir Vala frá því í færslu á Facebook hvernig einstaklingar úr hópi Varðmanna Víkurgarðs hafi sýnt sér afar óviðurkvæmilega framkomu vegna afstöðu hennar í málinu. Þannig hafi hún m.a. verið kölluð ungi sæti fornminjafræðingurinn, henni sagt að virða sér heldri menn og hún verið klipin í rassinn.

Frétt Vísis: Tveir Víkurgarðsmenn sagðir hafa klipið fornleifafræðing í rassinn

Jóhannes Stefánsson, framkvæmdastjóri Lindarvatns ehf., sem sér um uppbyggingu á svæðinu, gat ekki veitt viðtal en sagði í samtali við fréttastofu að til stæði að hefja framkvæmdir á svæðinu snemma á næsta ári og ljúka þeim um mitt ár 2019. Varðmenn Víkurgarðs hafa hins vegar hótað að stefna borginni verði verkefnið að veruleika. S. Björn Blöndal, formaður borgarráðs Reykjavíkur segir fátt því til fyrirstöðu að framkvæmdir hefjist von bráðar og hótun um málsókn muni ekki hafa áhrif á stöðu málsins innan borgarkerfisins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×