Viðskipti innlent

Vinnubann í Urriðaholti: Öryggi starfsmanna ógnað

Daníel Freyr Birkisson skrifar
Vinnubanni hefur verið komið á byggingarframkvæmdir í Mosagötu 4-12. Myndin er tekin í Urriðaholti.
Vinnubanni hefur verið komið á byggingarframkvæmdir í Mosagötu 4-12. Myndin er tekin í Urriðaholti. vísir/stefán
Vinna hefur verið stöðvuð við uppbyggingu íbúða í Mosagötu 4-12 í Urriðaholti Garðabæjar. Vinnueftirlitið fór fram á vinnubannið í kjölfar eftirlitsheimsókna fyrr í sumar og svo aftur í nóvember. Þar kom fram að starfsskilyrði væru ófullnægjandi og var því gripið til stöðvunar. Vinnueftirlitið birti skýrslugerð eftirlitsheimsóknanna á vefsíðu sinni þann 22. nóvember og mbl.is fjallaði um málið fyrr í dag. 

Fram kemur í úttekt Vinnueftirlitsins að félagið sem sér um byggingarframkvæmdirnar í götunni sé Ný uppbygging ehf.

Fyrsta úttekt stofnunarinnar fór fram þann 17. júlí í sumar og voru þar gerðar athugasemdir við fallvarnir á verkpöllum verktakans. Var svo metið að þær væru ófullnægjandi og ráðast þyrfti í að laga þær sem allra fyrst. Að sama skapi var gerð athugasemd við það að enga öryggis- og heilbrigðisáætlun væri að finna í tengslum við verkefnið. Ráðlagt var að greiða úr því strax.

Í annarri úttekt, sem fram fór tveimur dögum síðar þann 19. júlí kom fram að fallvarnir á verkpöllum hefðu ekki verið lagfærðar. Auk þess kom þar fram að gönguleiðir og umferðaleiðir um verkstaðinn væru hættulegar. Drasl og byggingarefni væru í gangveginum og reyndist það starfsfólki hættulegt. Í þriðja lagi fór notkun borðsagar og slípirokks fram án tilskyldra öryggishlífa og var notkun þeirra bönnuð þar til úrbóta væri gripið.

Unnið án öryggisfatnaðar- og hlífa

Þriðja eftirlitsheimsókn fór fram þann 21. nóvember og var þar enn og aftur gerð athugasemd við fallvarnir utanhúss vinnupalla en einnig innanhúss. Aukinheldur var gerð athugasemd við hjálma- og öryggisskóleysi starfsmanna. Þá kom fram að veittur frestur til að uppfylla skilyrði Vinnueftirlitsins væri einn dagur, önnur skoðun myndi fara fram þann 22. nóvember.

Degi seinna var vinnustöðvunin staðfest með úrskurði Vinnueftirlitsins.

Fyrirmæli stofnunarinnar hljóma svo:

„Öll vinnu er bönnuð á byggingarsvæðinu við Mosagötu 4-12, Urriðaholti, Garðabæ, þar til búið er að gera úrbætur vegna allra þeirra fyrirmæla sem Vinnueftirlitið hefur veitt fyrirtækinu og Vinnueftirlitið hefur aflétt banninu. Þrátt fyrir bannið er heimilt að vinna að úrbótum."

Framkvæmdirnar við Mosagötu eru sem fyrr segir í Urriðaholti í Garðabæ. Um er að ræða nýtt hverfi í Garðabæ sem hefur verið í stöðugri uppbyggingu. Hverfið er í grennd við Costco, Bónus og IKEA. Lóðirnar eru í eigu Urriðalands ehf., félags Urriðaholts ehf. og Landeyjar ehf. sem er dótturfélag Arion banka.



Fréttastofa reyndi að ná tali af forstjóra Vinnueftirlitsins og aðstandendum félags Nýrrar uppbyggingar án árangurs.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×