Viðskipti innlent

Gera ráð fyrir yfir 10 milljónum farþega árið 2018

Daníel Freyr Birkisson skrifar
Fjölgun farþega um Keflavíkurflugvöll hefur verið hröð undanfarin ár.
Fjölgun farþega um Keflavíkurflugvöll hefur verið hröð undanfarin ár. Vísir/Vilhelm
Farþegaspá Isavia fyrir næsta ár var kynnt í morgun og gerir hún ráð fyrir því að 10,4 milljónir farþega muni fara um Keflavíkurflugvöll árið 2018. Um er að ræða 18 prósent hækkun frá þessu ári. Spáin var kynnt á árlegum morgunfundi Isavia.

Mest er fjölgunin á meðal skiptifarþega, sem millilenda eingöngu á flugvellinum á leið sinni á milli Evrópu og Norður-Ameríku eða 33 prósent. Fjölgun komu- og brottfararfarþega er hlutfallslega minni en undanfarin ár, 10 prósent, en þó er fjölgunin töluvert yfir meðaltalsfarþegafjölgun á flugvöllum í Evrópu og Norður-Ameríku.

Isavia og ferðaþjónustan hafa markvisst unnið að því að dreifa álaginu og fjölga ferðamönnum utan sumartímans. Samkvæmt spánni verður fjölgun farþega í júní, júlí og ágúst um 4 prósent.

Fjölgun farþega sem fara um Keflavíkurflugvöll hefur verið hröð undanfarin ár, en árið 2010, þegar Isavia var stofnað, fóru rúmar tvær milljónir farþega um völlinn. Ef spáin gengur eftir mun farþegafjöldi hafa fjórfaldast á átta árum og ríflega tvöfaldast frá árinu 2015.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×