Innlent

Sigmundi þykir lítt til meintrar gjafmildi Katrínar koma

Jakob Bjarnar skrifar
Sigmundur Davíð furðar sig á þessu því sem honum þykir gervigjafmildi af hálfu Katrínar.
Sigmundur Davíð furðar sig á þessu því sem honum þykir gervigjafmildi af hálfu Katrínar. visir/daníel
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, bregður fyrir sig nöpru háði vegna orða Katrínar Jakobsdóttur, væntanlegs forsætisráðherra, að lagt verði uppúr samtali við stjórnarandstöðuna og þeim verði boðin formennska í þremur nefndum.

Þetta þykir Sigmundi Davíð hjákátlegt:

„Það var skondið að sjá tilkynningu um að verðandi ríkisstjórn ætlað að bjóða verðandi stjórnarandstöðu formennsku í þremur nefndum þingsins.

Í gær var okkur kynnt að samkvæmt þeirri reiknireglu sem notuð er til að skipta niður nefndarsætum ættu væntanlegir stjórnarandstöðuflokkar rétt á formennsku í þremur nefndum. Stjórnarflokkarnir (verðandi) tilkynntu hins vegar að þeir vildu fá að ráða því hvaða þrjár nefndir það yrðu,“ skrifar Sigmundur Davíð á Facebook-síðu sína.

Með öðrum orðum, þetta verður að heita vafasöm góðmennska af hálfu Katrínar.

„Við bíðum spennt að sjá hvaða gjafir verðandi ríkisstjórn kynnir næst. Bílastæði við þinghúsið (að því tilskyldu að þau verði á malarplaninu), aðgangur að mötuneytinu (þ.e. súpunni og kartöflum og/eða hrísgrjónum)?

Hver veit? Þessi væntanlega ríkisstjórn virðist ætla að verða jafn-gjafmild og hún er stefnuföst.“

Af þessum orðum Sigmundar Davíðs má ráða að hann muni reynast væntanlegri ríkisstjórn óþægur ljár í þúfu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×