Viðskipti innlent

Bankarnir þurfa að skila 170 milljörðum í hreinar tekjur á ári

Hörður Ægisson skrifar
Samkvæmt nýlegu mati Bankasýslunnar, sem heldur utan um eignarhluti ríkisins í fjármálafyrirtækjum, er umfram eigið fé stóru bankanna – mismunur á eigin fé þeirra og þeim eiginfjárkröfum sem Fjármálaeftirlitið hefur sett þeim – samtals um 183 milljarðar.
Samkvæmt nýlegu mati Bankasýslunnar, sem heldur utan um eignarhluti ríkisins í fjármálafyrirtækjum, er umfram eigið fé stóru bankanna – mismunur á eigin fé þeirra og þeim eiginfjárkröfum sem Fjármálaeftirlitið hefur sett þeim – samtals um 183 milljarðar. Vísir
Árlegur rekstrarkostnaður stóru viðskiptabankanna og Íbúðalánasjóðs (ÍLS) nemur samanlagt um 90 milljörðum en auk arðsemiskröfu eigin fjár upp á 12,5 prósent, sem er sambærilegt því sem þekkist hjá stöndugum bönkum í Skandinavíu, þurfa íslensku bankarnir því að skila rúmlega 170 milljörðum í hreinar tekjur á ári. Það jafngildir um sjö prósentum af landsframleiðslu Íslands á þessu ári.

Sigurður Atli Jónsson, stjórnarformaður ILTA Investments og fyrrverandi forstjóri Kviku banka, segir í viðtali við Markaðinn að þessi staða sýni að fjármálakerfið í dag sé „of dýrt, offjármagnað og of einsleitt. Það er of mikið að svo stór hluti af landsframleiðslunni fari á hverju ári í að búa til rekstrargrundvöll fyrir þrjá viðskiptabanka sem nær eingöngu sinna innlendri starfsemi.“ Þessari óhagkvæmni í rekstri og fjármögnun bankanna, sem eru allir með mikið umfram eigið fé, sé velt yfir á viðskiptavini þeirra og kostnaðurinn lendi því með öðrum orðum á samfélaginu öllu.

Sigurður Atli, sem stýrði Kviku og MP banka á árunum 2011 til 2017, er þeirrar skoðunar að ríkið eigi að einskorða hlutverk sitt í fjármálakerfinu við það að leggja áherslu á ákveðna grunnfjármálaþjónustu eins og aðgengi að greiðslumiðlun og grunnfjármögnun fyrir atvinnulífið og heimilin. „Ég tel fjölhæfinguna í dag vera of mikla og sérhæfinguna og sérstöðuna of litla,“ segir hann. Með því að gera hvern banka sérhæfðari myndi það meðal annars skila sér í því að þeir yrðu áhugaverðari fjárfestingarkostur þar sem meiri sérhæfing og samvinna fyrirtækja gerir þau verðmætari og seljanlegri. „Sérhæfðir bankar eru því ákjósanlegri þegar kemur að sölu á eignarhlutum ríkisins.“

Slæm meðferð fjármuna

Í stjórnarsáttmála nýrrar ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks, Vinstri grænna og Framsóknarflokks, sem verður kynntur á morgun samhliða því að stjórnin tekur við á ríkisráðsfundi, er lögð áhersla á að stjórnvöld skoði leiðir til að endurskipuleggja fjármálakerfið, samkvæmt heimildum Markaðarins. Skipa eigi þannig nefnd sem á að vinna svonefnda hvítbók um heildarendurskoðun á fjármálakerfinu á kjörtímabilinu.

Samkvæmt nýlegu mati Bankasýslunnar, sem heldur utan um eignarhluti ríkisins í fjármálafyrirtækjum, er umfram eigið fé stóru bankanna – mismunur á eigin fé þeirra og þeim eiginfjárkröfum sem Fjármálaeftirlitið hefur sett þeim – samtals um 183 milljarðar. Hlutur ríkissjóðs í þessu umfram eigin fé viðskiptabankanna, en ríkið á Landsbankann og Íslandsbanka að fullu og 13 prósenta hlut í Arion banka, getur samkvæmt mati Bankasýslunnar því numið um 120 milljörðum. Í útreikningum stofnunarinnar er tekið tillit til mögulegrar útgáfu víkjandi skuldabréfa, sem gæti aukið arðgreiðslugetu bankanna talsvert á næstu árum.

Eigið fé bankanna þriggja nam um mitt þetta ár 637 milljörðum og þá var eigið fé Íbúðalánasjóðs um 24 milljarðar. Eigið fé ríkisins í bönkunum og Íbúðalánasjóði, reiknað út frá eignarhluta þess í viðkomandi fyrirtækjum, er því samtals um 466 milljarðar. Sigurður Atli bendir á að hið mikla umfram eigið fé sem er í fjármálakerfinu myndi duga – og gott betur en það – til að reka annaðhvort Arion banka eða Íslandsbanka miðað við núverandi eiginfjárkröfur FME. „Þetta getur ekki talist vera góð meðferð fjármuna,“ útskýrir hann, enda sé „verið að starfrækja í raun þrjá banka með eigin fé sem dugar fyrir fjóra banka“.

Ríkið þarf að hafa frumkvæði

Í aðdraganda nýafstaðinna kosninga lögðu nánast allir stjórnmálaflokkar til að eigið fé viðskiptabankanna yrði minnkað um tugi til hundrað milljarða á komandi árum, áður en þeir yrðu seldir, og söluandvirðið nýtt til þess að greiða niður skuldir og fjármagna uppbyggingu innviða. Þá hafa sumir stjórnmálaflokkar, einkum og sér í lagi Framsóknarflokkurinn og Miðflokkurinn, talað fyrir því að ráðist verði í endurskipulagningu á fjármálakerfinu. Nokkuð óljóst hefur verið í máli forsvarsmanna þessara flokka hvað nákvæmlega þar er átt við – annað en yfirlýsingar um að fjármálakerfið eigi að þjóna heimilunum og fyrirtækjum en ekki öfugt – en Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, hefur hins vegar verið skýr um að hann vilji að ríkið taki Arion banka yfir með því að nýta sér mögulegan forkaupsrétt að bankanum.

Sá forkaupsréttur er samt ekki valkvæður af hálfu ríkisins en hann getur aðeins virkjast ef eignarhaldsfélagið Kaupþing, sem á núna rúmlega 57 prósenta hlut í Arion banka, hyggst selja hlut í bankanum á genginu 0,8 eða lægra miðað við eigið fé bankans. Þegar tæplega 30 prósenta hlutur í bankanum var seldur til erlendra vogunarsjóða og Goldman Sachs fyrr á árinu fyrir um 49 milljarða var sölugengið um 0,81 miðað við árshlutareikning Arion banka í lok september 2016. Ef hins vegar horft hefði verið til síðasta endurskoðaða ársreiknings bankans í árslok 2015, eins og hefði strangt til tekið átt að gera samkvæmt þeim stöðugleikaskilyrðum sem kröfuhafar Kaupþings samþykktu í aðdraganda nauðasamninga, þá hefði gengið verið um 0,87 miðað við bókfært eigið fé.

„Sérhæfðir bankar eru ákjósanlegri þegar kemur að sölu á eignarhlutum ríkisins,“ segir Sigurður Atli Jónsson, stjórnarformaður ILTA Investments og fyrrverandi forstjóri Kviku banka.
Sigurður Atli segir að óháð því hvort ríkið eignist Arion banka eða ekki þurfi stjórnvöld eftir sem áður að hafa frumkvæði að því að gera nauðsynlegar breytingar á fjármálakerfinu. „Mikið og gott starf hefur verið unnið við endurreisn og endurskipulagningu í samfélaginu í kjölfar fjármála- og efnahagshrunsins 2008. Fjármálakerfið, og þá ekki síst endurreistu bankarnir, hefur gegnt mikilvægu hlutverki í þeim efnum. Það verk hefur tekist afar vel. Því er nú í öllum aðalatriðum lokið og tímabært að meta stöðuna með tilliti til framtíðar.“

Yrðu betri söluvara

Sigurður Atli rifjar upp það mat Samkeppniseftirlitsins að bankamarkaðurinn sé fákeppnismarkaður og að viðskiptabankarnir séu taldir vera í markaðsráðandi stöðu. „Stóru bankarnir þrír,“ útskýrir hann, „eru jafnframt nánast allir eins uppbyggðir og ef eitthvað er hafa bankarnir orðið líkari á síðustu misserum og árum ef rýnt er í tekjusamsetningu þeirra. Viðskiptalíkanið er það sama, umfangið er svipað, ásýndin er keimlík og starfsemin í nánast öllum aðalatriðum eins. Áhugi á að fjárfesta í hlutabréfum bankanna á verði sem endurspeglar að minnsta kosti eigin fé þeirra virðist, meðal annars af þessum sökum, minni en vonast hafði verið til.“

Að mati Sigurðar Atla er stórt tækifæri um þessar mundir til að gera breytingar sem geta skilað sér í hagkvæmara og fjölbreyttara fjármálakerfi sem skili samfélaginu meiri ávinningi en núverandi fyrirkomulag. Í fyrsta lagi þurfi, eins og allir stjórnmálaflokkar virðast nú vera sammála um, að greina ítarlega núverandi hagkvæmni efnahags og rekstrar bankanna sem eru í eigu ríkissjóðs með það fyrir augum að unnt sé að minnka eiginfjárbindingu þeirra og lækka rekstrarkostnað. Þannig ætti meðal annars að breyta samsetningu eiginfjárþátta bankanna þannig að þeir verði í einhverjum mæli fjármagnaðir með víkjandi lánum. Útgáfa Íslandsbanka fyrr í þessum mánuði, þar sem bankinn gaf út slíkt skuldabréf fyrir jafnvirði um 9 milljarða króna, sýni að það er eftirspurn eftir þess konar skuldabréfaútgáfum íslenskra banka.

Í öðru lagi eigi stjórnvöld að hefja undirbúning að því að stokka upp og sundurgreina viðskiptalíkan Landsbankans og Íslandsbanka. Slíkar aðgerðir, sem væru til þess fallnar að auka sérhæfingu þeirra, myndu ekki hvað síst gera bankana að betri söluvöru fyrir ríkið og auka virði þeirra.

„Annar bankinn, til dæmis Landsbankinn, ætti þannig að sinna eingöngu viðskiptabankastarfsemi og leggja áherslu á greiðslumiðlun og grundvallarfjármögnun fyrir heimilin og atvinnulífið. Áhersla verði á lækkun rekstrarkostnaðar bankans og einfalt vöruframboð sem falli að þörfum fyrirtækja og heimila. Hinn ríkisbankinn, sem væri þá Íslandsbanki, yrði hins vegar í auknum mæli fyrirtækjabanki sem sinni þörfum meðalstórra og stórra fyrirtækja, sveitarfélaga og stofnana. Áhersla verði þar lögð á samstarf og mögulega eignarhald með alþjóðlegum fjármálafyrirtækjum. Flókin og áhættusöm fjármálastarfsemi og rekstur sem ekki fellur undir starfssvið þessara banka verði aðskilin og seld eða fengnir samstarfsaðilar að henni,“ segir Sigurður Atli.

Ríkið ber mikla ábyrgð

Eins og sakir standa er stefnt að útboði og skráningu Arion banka á fyrsta fjórðungi næsta árs þar sem Kaupþing hyggst losa um stóran hlut sinn í bankanum. Áður en að því kemur er það mat Kaupþings að félagið þurfi fyrst að ná samkomulagi við nýja ríkisstjórn um endurskoðun á mögulegum forkaupsrétti ríkisins. Samkvæmt þeim stöðugleikaskilyrðum sem kröfuhafar Kaupþings samþykktu haustið 2015 er gert ráð fyrir því að hann sé endurskoðaður við opið hlutafjár­útboð. Að öðrum kosti er enda talið að forkaupsrétturinn sem slíkur myndi valda óvissu og aftra fjárfestum frá þátttöku í útboðinu og þar með koma í veg fyrir að raunverulegt markaðsverð á bankanum yrði leitt fram.

Sigurður Atli segir að ef sú staða kemur upp að ríkið eignist Arion banka eigi stjórnvöld að leita eftir því að sameina rekstur hans hinum bönkunum tveimur eða öðrum aðilum á fjármálamarkaði, að því marki sem samkeppnissjónarmið leyfa. „Bankinn gæti jafnframt fengið aukið vægi í nýsköpunarfjármögnun en afar mikilvægt er að nægjanlegt fjármagn sé tekið frá í hagkerfinu til að stuðla að rannsóknum, þróun og nýsköpun í atvinnulífinu. Þá fjármuni sem ríkið fær til baka við lækkun eigin fjár í bönkunum mætti nýta, þó ekki sé nema að takmörkuðum hluta, til að ráðstafa í slíka nýsköpunarfjármögnun.“

Stór hluti rekstrarkostnaðar bankakerfisins eru hinir sértæku skattar sem voru lagðir á í kjölfar bankahrunsins. Í fyrra námu þeir samtals um 14 milljörðum króna og munaði þar mest um hinn sérstaka skatt á fjármálafyrirtæki sem leggst á skuldir umfram 50 milljarða. Sigurður Atli segir að rétt sé að afnema þá skatta enda hafi þeir verið hluti af fjármögnun ríkissjóðs á eftirstöðvum fjármálaáfallsins. „Því tímabili er nú lokið og skattlagningin mun eftirleiðis aðeins auka á óhagkvæmni fjármálakerfisins fyrir almenning og rýra samkeppnisstöðu þess gagnvart erlendum fjármálafyrirtækjum.“

Hann segir að núna sé fram undan mótun hins nýja fjármálakerfis þar sem íslensk stjórnvöld beri óhjákvæmilega mikla ábyrgð. „Ríkið sem eigandi að kerfislega mikilvægum fjármálafyrirtækjum hlýtur að hafa forystu um að aðskilja flókna fjármálastarfsemi frá hefðbundinni viðskiptabankastarfsemi og þannig búa til hagkvæmari og seljanlegri fjármálafyrirtæki. Þar með skapast grundvöllur fyrir því að ríkið minnki umsvif sín á fjármálamarkaði og afmarki hlutverk sitt með skýrari hætti.“

Fréttin birtist fyrst í Markaðnum, fylgiriti Fréttablaðsins um viðskipti og fjármál. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×